Þetta getur ekki gengið svona áfram

Bruninn við Stangarhyl 3 í gær.
Bruninn við Stangarhyl 3 í gær. Ljósmynd/Aðsend

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra sagði á Alþingi í dag að því miður reynist það allt of oft að brunar eigi sér stað í atvinnuhúsnæði þar sem fólk býr í einhvers konar óleyfishúsnæði.

Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Sigurð Inga undir liðnum óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra um búsetu í ósamþykktu húsnæði og brunavarnaaðgerðir en bruninn sem kom upp í Stangarhyl í gær átti sér stað í slíku húsnæði. Einn einstaklingur liggur þungt haldinn á sjúkrahúsi eftir brunann.

Ábyrgðin hjá eigendum þessara húsa

„Það verður að segjast alveg eins og er að maður hrekkur bara við reglulega, því miður, þegar maður heyrir í fréttum af brunum hér á höfuðborgarsvæðinu. Því miður reynist það allt of oft vera í atvinnuhúsnæði þar sem fólk býr í einhvers konar óleyfishúsnæði,“ sagði Sigurður Ingi meðal annars í svari sínu.

Sigurður sagði að eftir hina hörmulegu atburði á Bræðraborgarstíg hafi verið settur á laggirnar starfshópur af þáverandi félags- og vinnumálaráðherra, sem fór og og kortlagði hvað væri hægt að gera betur.

„Það er frumvarp sem ég er búinn að fara með í gegnum ríkisstjórn og ég vona að það komi hingað inn í þingið á næstu dögum, í dag eða á morgun, og ég geti farið yfir það. Það mun taka á því að heimila skráningu í svona húsnæði. En auðvitað er ábyrgðin hjá eigendum þessara húsa og ég vil nota þetta tækifærið hérna og skora á það fólk sem á slíkt húsnæði að koma því í lag. Þetta getur ekki gengið svona áfram,“ sagði Sigurður Ingi ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert