Þýðir ekki að vera reiður heldur lausnamiðaður

Feðgarnir Þorleifur Gunnlaugsson og Haraldur Þorleifsson á blaðamannafundinum í dag.
Feðgarnir Þorleifur Gunnlaugsson og Haraldur Þorleifsson á blaðamannafundinum í dag. Eggert Jóhannesson

Haraldur Þorleifsson, stofnandi hönnunarfyrirtækisins Ueno, bauð fólki í heimsókn í íbúð sína við Tryggvagötu í dag í tilefni þess að eitt þúsund rampar hafa verið byggðir hér á landi, ári á undan upphaflegri áætlun. Viðburðurinn var haldinn í samstarfi við Hitt Húsið, þar sem þúsundasti rampurinn hefur einmitt risið. 

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Haraldur við undirritun samningsins.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Haraldur við undirritun samningsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Opinberar byggingar næstar

Haraldur, sem er upphafsmaður verkefnisins, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri undirrituðu við þetta tækifæri viðauka við samning um að borgin haldi áfram að styrkja verkefnið. Auk þess að byggja 1.500 rampa í heildina hefur stefnan verið sett á að rampa upp opinberar byggingar en hingað til hafa byggingar í einkaeigu verið í fyrirrúmi. Ráðinn hefur verið sérstakur aðgengisfulltrúi til að fara yfir alla hönnun hjá borginni og einnig í opinberum byggingum.

Haraldur ásamt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra.
Haraldur ásamt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Markið sett hærra og boginn spenntur 

„Það er ótrúlega gaman að sjá að verkefnið rúllar og rúllar og rúllar. Það er búinn að vera rosalegur gangur, sérstaklega á þessu ári. Það hafa verið rúmlega 500 rampar byggðir á síðustu tólf mánuðum, sem er ótrúlegt,” segir Haraldur í spjalli við blaðamann á staðnum. 

Upphaflega markmiðið var að byggja 100 rampa í Reykjavík, síðan stækkaði það í 1.000 um allt land og núna er markmiðið að ná 1.500. Haraldur segir það hafa komið á óvart hversu vel hafi gengið. Markið hafi sífellt verið sett hærra og boginn spenntur rækilega.

„Það var einhver glufa, það var eitthvað vandamál í kerfinu eins og það var. Það vissu ekki allir nákvæmlega hver bar ábyrgð á því að laga þetta. Verkefnið kom inn í þessa glufu, að brúa þetta bil, finna út úr því hvernig var hægt að byggja rampana ódýrt, fallega, vel og hratt,” greinir Haraldur frá um verkefnið.

Samstarf við erlendar borgir

Spurður hvort hópurinn ætlar að staldra við 1.500 rampa segir hann að verkefnin sem lagt var upp með að ráðast í séu að klárast. Staðan verði skoðuð þegar búið verður að smíða alla 1.500 rampana. Einnig er verið að skoða samstarf við borgirnar París, Stokkhólm og Lviv í Úkraínu.

Sigurður Ingi Jóhannsson flutti stutta ræðu.
Sigurður Ingi Jóhannsson flutti stutta ræðu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Haraldur segir starfsfólkið í kringum verkefnið vera ótrúlegt og nefnir m.a. þá sem byggja rampana, stjórnina í Römpum upp Ísland og föður sinn, Þorleif Gunnlaugsson, sem annast daglega reksturinn.

Stoltur af stráknum

Þorleifur tók einmitt á móti gestunum sem mættu á viðburðinn. Hann kveðst vera mjög stoltur og jafnframt ánægður með að fá að ljúka starfsævinni í að bæta aðgengi fyrir fatlaða.

„Þetta er búið að vera efst í mínum huga alveg síðan Halli var sex ára eða svo,” segir Þorleifur og bætir við að sjónarmið sonar síns hafi skipt sköpum til að láta verkefnið ganga upp. Til dæmis hafi Þorleifur orðið reiður þegar sonurinn komst ekki inn í aðalbyggingu Háskóla Íslands. Rampurinn var of brattur og ekki mátti laga hann sökum hönnunarástæðu.

Þorleifur og Haraldur.
Þorleifur og Haraldur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Hann [Haraldur] hefur kennt mér það að reiðin fleytir manni ekkert mjög langt. Maður verður að vera lausnarmiðaður og hann er mjög lausnarmiðaður. Það sýnir sig bara á þessu. Það er ótrúlegur árangur að ná því að gera 1.000 rampa um allt land,” greinir Þorleifur frá.

Frábært starfsfólk

Hann segist hafa á sínum tíma orðið kvíðinn fyrir verkefninu sem honum var fólgið sem snerist um að byggja 100 rampa. Hlutirnir hafi sem betur fer gengið vel og ramparnir 100 hafi klárast á aðeins átta mánuðum.  

„Að fá að ljúka starfsævinni í þessu finnst mér vera yndislegt. En auðvitað er þetta ekki bara ég og ekki bara Halli heldur fullt af fólki. Þetta kostar mikið og Halli leggur til mikið fjármagn en það eru aðrir sem gera það líka. Síðan erum við með frábært starfsfólk, bæði hönnuði og þá sem eru að gera rampana,” bendir Þorleifur á.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, fyrrverandi formaður ÖBÍ, er í stjórn Römpum …
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, fyrrverandi formaður ÖBÍ, er í stjórn Römpum upp Ísland. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fötlunin verður aflvaki 

Spurður út í Harald og verkefnið Römpum upp Ísland segir Guðni Th. Jóhannesson það afar vel gert hjá Haraldi að átta sig á því að hann getur látið góða hluti gerast. Hann láti fötlun sína ekki stöðva sig heldur þvert á móti láti hana verða aflvaka.

„Auðvitað hugsar maður sem svo að það þurfi ekki einhvern efnaðan athafnamann til þess að kippa þessum hlutum í lag. En um leið getum við líka sagt að það sé gott að fólk sem vill láta gott af sér leiða finni þessa fínu leið til þess,” segir Guðni en skömmu áður hafði Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra sagt í ræðu sinni það vera umhugsunarefni að ríkið hafi ekki átt frumkvæðið að verkefninu.

Guðni Th. Jóhannesson forseti ásamt Haraldi Þorleifssyni.
Guðni Th. Jóhannesson forseti ásamt Haraldi Þorleifssyni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Auðvitað eigum við að hafa hlutina þannig að aðgengi sé gott og fullnægjandi, sérstaklega í almannarými. Við höfum lög og reglur um að það og þá skulum við bara reyna að fara eftir þeim,” bætir forsetinn við.

Ævintýri líkast

Vilhjálmur Hauksson var einn þeirra sem flutti ræðu á viðburðinum. „Ég hef aldrei séð samfélag koma svona mikið saman yfir einhverju,” sagði hann um verkefnið Römpum upp Ísland og bætti við að fólk hafi áttað sig á því viðhorfið skiptir máli.  

Vilhjálmur Hauksson (í miðjunni) var á meðal þeirra sem fluttu …
Vilhjálmur Hauksson (í miðjunni) var á meðal þeirra sem fluttu ræðu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þá sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra það ævintýri líkast að fylgjast með verkefninu og þakkaði Haraldi sérstaklega fyrir hans þátt. Hún sagði verkefnið einnig snúast um óáþreifanlegar hindranir. Hún sagði alla eiga jafnan rétt á að láta drauma sína rætast og hvatti til þess að Ísland yrði hindranalaust.

Að verkefninu Römpum upp Ísland koma margir styrktaraðilar, þeirra á meðal: Ueno, Innviðaráðuneytið, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, Össur, Deloitte, Brandenburg, Aton.JL, Lex lögmannsstofa, BM Vallá, Icelandair, Orkan, ÞG Verk, Sjálfsborg, og ÖBÍ. Að auki hefur fjölmargt stuðningsfólk lagt hönd á plóg, að því er segir í tilkynningu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert