10-20 hús ónýt og skoðun enn í gangi

10-20 hús þykja óíbúðarhæf eftir jarðhræringarnar í Grindavík. Skoðun stendur …
10-20 hús þykja óíbúðarhæf eftir jarðhræringarnar í Grindavík. Skoðun stendur enn yfir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samkvæmt mati burðarþolssérfræðinga sem nú eru að að störfum í Grindavík fyrir hönd Náttúruhamfaratryggingar Íslands (NTÍ) eru 10-20 hús þegar metin óíbúðarhæf.

Eingöngu er um að ræða hús sem eru við stærsta sprungusvæðið sem liggur í gegnum bæinn. Í heild eru 7-8 sprungusvæði sem verkfræðingar á vegum Náttúruhamfaratryggingar eiga eftir skoða áður en frumskoðun lýkur.

„Það er ekki komin endanleg tala (á óíbúðarhæf hús) en það eru matsmenn að störfum í dag og verða á morgun. Eftir morgundaginn verðum við með betri mynd á því hvað þetta eru mörg hús í heild,“ segir Hulda Ragnheiður Árnadóttir, forstjóri Náttúruhamfaratryggingar Íslands. Að sögn hennar eru húsin metin óíbúðarhæf þegar verulegar skemmdir hafa orðið á burðarvirki húsanna.

Hulda Ragnheiður Árnadóttir, forstjóri Náttúrhamfaratryggingar Íslands.
Hulda Ragnheiður Árnadóttir, forstjóri Náttúrhamfaratryggingar Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Brunabótamat forsenda bóta

Samkvæmt reglum NTÍ er brunabótamat forsenda tjónabóta. Í þessu samhengi má þó benda á að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun uppfærði nýlega fasteignamat í takt við markaðsvirði fasteigna og er brunabótamat því mun nærri markaðsvirði en fyrir ári síðan.  

„Víkurhóp og Víkurbraut eru þar sem flest (óíbúðarhæf) hús standa við,“ segir Hulda. Samkvæmt upplýsingum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) stendur fasteignamat árið 2024 fyrir íbúðarhús við Víkurbraut í um 2 milljörðum króna samtals. Hins vegar stendur brunabótamat nærri 2,5 milljörðum króna. 

Að sögn hennar eru mörg dæmi þess að ónýt hús standi við hlið húsa sem staðið hafa jarðhræringarnar af sér.​​​ Verkfræðingar leggja áherslu á að skoða mest skemmdu húsin fyrst.

Sendu áskoranir á fólk 

Að sögn Tryggva Más Ingvarssonar, framkvæmdastjóri fasteignasviðs HMS, yfirfóru starfsmenn stofnunarinnar brunabótamat húsa í Grindavík þegar jarðhræringar hófust. Að sögn hans voru um 50 hús sem náðist að endurmeta áður en neyðarstigi var lýst yfir. 

„Við sendum áskoranir á fólk um að senda okkur upplýsingar um húsin sín þegar okkur fannst einhver dæmi sem stungu í stúf. Til að mynda þegar okkur fannst brunabótamatið ekki endurspegla byggingarkostnað,“ segir Tryggvi.  

 

Tryggvi Már Ingvarsson, framkvæmdastjóri fasteignasviðs HMS.
Tryggvi Már Ingvarsson, framkvæmdastjóri fasteignasviðs HMS. mbl.is/Eyþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert