Hæstiréttur samþykkti á föstudaginn beiðni um áfrýjunarleyfi frá Þrotabúi Sameinaðs sílikons hf. til áfrýjunar dóms Landsréttar frá 6. október í máli þrotabúsins gegn Ernst & Young ehf. sem búið krefur um tæplega tvo milljarða króna í bætur vegna meintrar saknæmrar háttsemi í tengslum við aðkomu nafngreindra starfsmanna Ernst & Young að tilkynningu tíu hlutafjárhækkana.
Héraðsdómur sýknaði Ernst & Young og staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu í maí með þeim rökstuðningi að líta yrði svo á að með áritunum sínum á tilkynningar ríkisskattstjóra hefði Ernst & Young staðfest að allur hlutafjáraukinn hefði verið greiddur hverju sinni. Greiðslur inn á reikninga fyrirtækisins Tomahawk Development á Íslandi hf. hefðu ekki borið annað með sér en að þær væru fyrir hlutafjáraukninguna.
Þá hefði ekki legið fyrir að starfsmönnum Ernst & Young hefði verið kunnugt um eignarhald eða rekstur Pyromet Engineering B.V. í Hollandi sem samkvæmt fulltrúum þrotabúsins gegndi lykilhlutverki við „hringferð“ fjármuna inn og út af innlendum sem erlendum reikningum fyrirtækja sem málinu tengjast.
Varakrafa þrotabúsins er öllu lægri, rúmar 42 milljónir, upphæð sem vantað hefði upp á fulla greiðslu einnar hlutafjárhækkunarinnar. Taldi Landsréttur að ekki hefði verið hugað nægilega að því hvort hin umdeilda hlutafjárhækkun hefði verið greidd að fullu. Væri krafan því svokölluð skaðabótakrafa utan samninga er miðaði að því að gera tjónþola eins settan fjárhagslega og hefði tjónvaldur ekki sýnt af sér saknæma háttsemi.
Segir í áliti Hæstaréttar að þrotabúið byggi á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um þá niðurstöðu Landsréttar að tjón geti ekki leitt af rangri staðfestingu sérfræðings á greiðslu hlutafjár þótt fyrir lægi að greiðslan hefði borist að fullu og öllu.
Hafi Hæstiréttur áður veitt nokkur áfrýjunarleyfi vegna starfa Ernst & Young í tengslum við sakarefni máls Sameinaðs Sílikons hf. Að mati þrotabúsins hafi málið einnig verulegt gildi hvað snertir túlkun aðgæslu- og tilkynningaskyldu endurskoðenda samkvæmt þágildandi lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti. Að lokum telji þrotabúið þær forsendur Landsréttar ekki standast að tjón geti ekki orðið vegna framtíðarfjárfestinga og eignaleysis tjónþola sem þar með gangi í berhögg við dómaframkvæmd.
Taldi Hæstiréttur að virtum gögnum málsins og fyrri leyfisveitinga til áfrýjunar að dómur í því gæti haft fordæmisgildi meðal annars hvað varðar sérfræðiábyrgð endurskoðenda og var leyfi til áfrýjunar því samþykkt.