Atvinnustarfsemi gæti hafist að nýju

Bærinn er nú opinn frá sjö á morgnana til klukkan …
Bærinn er nú opinn frá sjö á morgnana til klukkan fimm síðdegis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tíminn sem opið er inn í Grindavíkurbæ verður lengdur frá og með deginum í dag og verður nú hægt að vera í bænum frá sjö á morgnana til fimm á daginn. Vonir eru bundnar við að atvinnustarfsemi geti hafist að nýju í bænum í næstu viku. Þetta segir Fannar Jónasson bæjarstjóri Grindavíkur í samtali við Morgunblaðið.

„Þau verða nú að meta þetta sjálf en þau byrja á því að prufukeyra vélar og tæki og annað slíkt. Ef allt gengur að óskum getur vinnsla hafist í smáum stíl í næstu viku,“ segir Fannar og útskýrir að væntanlega verði fyrst hafist handa við vinnslu fiskafurða. Hann geri svo ráð fyrir að með tímanum bætist þjónustustarfsemi og önnur starfsemi við.

Atvinnustarfsemi verður háð sömu tímatakmörkunum og gilda um íbúa. Ef tíminn sem bærinn er opinn verður hinn sami og í dag munu fyrirtæki geta starfað á milli klukkan sjö og fimm á daginn.

Ekki ljóst hvenær fólk fer heim

Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, segir í samtali við Morgunblaðið að ástandið sé fljótt að breytast og því ekki hægt að segja til um hvenær íbúar geti flutt aftur í bæinn. Hann vitnar í gögn Veðurstofunnar sem komu út í gær en um miðnætti í gær hófst jarðskjálftahrina nærri Sýlingafelli og mældust um 170 skjálftar í hrinunni sem stóð yfir í um klukkustund. Út frá aflögunargögnum frá gps-mælum og gervitunglum sést að þensla heldur áfram við Svartsengi og aflögun mælist enn nærri kvikuganginum.

„Þetta ástand er bara mjög kvikt og þessi skjálftahrina í [fyrrinótt] sýnir okkur að þetta er atburður sem er enn þá í gangi. Við höfum talað um að þessir rýmkuðu möguleikar á því að vera í Grindavík yfir daginn séu gluggi, og glugginn er opinn enn þá, en við vitum líka af fyrri reynslu á þessu svæði að það verður að vera hægt að bregðast hratt við,“ segir Víðir.

Verið er að skoða skólplagnir í Grindavík og gert ráð fyrir að það taki um tvær vikur. 

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert