Bætti sprungunni í skjaldarmerki Grindavíkurbæjar

Óskar segir ekkert annað hafa komið til greina en að …
Óskar segir ekkert annað hafa komið til greina en að breyta upprunalegu hugmyndinni að húðflúrinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Grindvíkingurinn Óskar Guðlaugsson, segir ekki annað koma til greina en að flytja aftur til Grindavíkur þegar leyfi fæst til, enda sé hann einn af fáum Grindvíkingum sem hefur látið húðflúra skjaldarmerki Grindavíkur á upphandlegginn á sér. 

Óskar er eigandi fyrirtækisins Guðlaugsson ehf. í Grindavík og starfar nú í bænum við að moka upp lagnakerfið, auk þess að fylla í sprungur. Þegar blaðamaður mbl.is ræddi við Óskar í lok dags kvaðst hann hafa verið að moka í eina sprungu í bænum en fljótlega gefist upp, enda þurfi „vörubíla í fleirtölu“ til þess að fylla í margar af sprungunum. 

Ákvað að breyta upprunalegu hugmyndinni

Óskar stóð björgunarsveitarvaktina í bænum frá því hann var rýmdur, föstudaginn 10. nóvember, og þar til fyrirtækið hans fékk leyfi til að hefja störf í vikunni. Á þessum tíma hefur hann þó tekið sér tvo frídaga, sem hann nýtti meðal annars í fyrirhugaðan húðflúrstíma. 

Hann segist hafa átt pantaðan tíma í húðflúr áður en bærinn var rýmdur og sprunga myndaðist í gegnum hann. Upphaflega hafði hann áætlað að láta húðflúra á sig skjaldarmerki Grindavíkurbæjar, það var síðan þegar sprungan hafði myndast sem hann ákvað að láta breyta skjaldarmerkinu aðeins. 

„Ég átti tattoo-tíma þannig að ég breytti bara því sem átti að vera, þetta er raunverulega sprungan,“ segir Óskar og bætir við að hann sé með Geldingadalina húðflúraða á hina höndina.

Enn á eftir að leggja loka hönd á húðflúrið að …
Enn á eftir að leggja loka hönd á húðflúrið að sögn Óskars, en á myndinni má sjá hvernig sprungan liggur í gegnum skjaldarmerkið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

 „Þessi bær verður byggður upp“ 

Aðspurður segist Óskar ekki hafa nokkurn áhuga á því að staldra við á meðan unnið er að uppbyggingu í Grindavíkurbæ. 

„Ég hef engan áhuga á að stoppa einhversstaðar, maður verður að hafa verkefni. Byggja upp bæinn, ég ætla að taka þátt í því. Hvort sem ég kem aftur eða ekki, þessi bær verður byggður upp.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert