Geta einungis endurnýtt einn þúsundasta

„Erum við að kaupa til að henda?“ er spurningin sem …
„Erum við að kaupa til að henda?“ er spurningin sem varpað var fram á málfundi 66° Norður og Festu. mbl.is/Geir

Losun vegna framleiðslu á tískufatnaði mun aukast um 50% fyrir árið 2030 ef framleiðsla helst stöðug miðað við árið í fyrra og einungis er hægt að vinna tæpt kílógramm úr endurnýtingu á tonni af hraðtísku.

Þetta kom fram á málfundi á vegum 66° Norður, Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs og Festu, miðstöðvar um sjálfbærni, í síðustu viku þar sem spurningunni „Erum við að kaupa til að henda?“ var varpað fram. 

Neysluhyggja Íslendinga

Helsta mál sem tekið var fyrir á fundinum var neysluhyggja Íslendinga. Elva Rakel Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Festu fjallaði sérstaklega um neyslumynstur í fyrirlestrinum sínum, en þar kom fram að ef allur heimurinn myndi neyta eins og Íslendingar neyta, þá þyrfti fjórtán plánetur til þess að hýsa mannkynið.

Þá var einnig stiklað á nýrri rannsókn á vegum Evrópusambandsins, sem segir losun vegna framleiðslu á tískufatnaði muni aukast um 50% fyrir árið 2030 ef framleiðsla helst stöðug miðað við árið í fyrra.

Mótsvar við svörtum föstudegi

Fundinum var stillt upp sem eins konar mótsvari við svokölluðum svörtum föstudegi og þeirri neysluhyggju sem hvatt er til á þeim degi, en á morgun munu ýmsar verslanir halda upp á svartan föstudag og bjóða upp á vörur á afslætti.

Fyrirlesarar málfundarins hömruðu allir á svipuðum áherslum: Leita þarf lausna til þess að minnka við umhverfisspor textílsiðnaðarins og virkja þarf hringrásahagkerfi í textíliðnaðinum.

Kjóll sem endurnýttur var úr efnum á vinnustöðum 66° Norður, …
Kjóll sem endurnýttur var úr efnum á vinnustöðum 66° Norður, en tónlistarkonan Bríet gerði kjólinn frægan á sínum tíma. mbl.is/Geir

Reyna að halda efnum sem lengst í kerfinu

Pallborðsumræða var haldin að fundi loknum og þar hvöttu viðmælendur fólk til að kaupa minna, endurnota í stað þess að endurnýta og þannig að halda efnum sem lengst í kerfinu.

Þá benti Freyr Eyjólfsson, sem stýrði fundinum, á að einungis er hægt að vinna tæpt kílógramm með endurnýtingu á einu tonni af svokölluðum hraðtískuflíkum (e. „fast fashion“).

Hraðtíska vísar til fatnaðar sem stórkeðjur á borð við HM framleiða úr lágæða textílsefnum í fjöldamagni og þá iðulega í verksmiðjum þar sem vinnuaðstæður mættu vart kallast boðlegar.

Einnig var talað um mikilvægi framleiðslu innanlands og hvernig væri hægt að nýta tæknina til þess að framleiða flíkur frá upphafi til enda hérlendis. 

Í því samhengi var talað um mikilvægi þess að mennta fólk innanlands til þess að sinna frekari textílsstörfum, þá meðal annars viðgerðum á flíkum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert