Hættustigi lýst yfir í Eyjum

mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Rík­is­lög­reglu­stjóri, í sam­ráði við lög­reglu­stjór­ann í Vest­manna­eyj­um, hef­ur ákveðið að lýsa yfir hættu­stigi í Vest­manna­eyj­um vegna skemmda á neyslu­vatns­lögn sem ligg­ur til Vest­manna­eyja.

Raun­veru­leg hætta er á að neyslu­vatns­lögn­in rofni al­veg.

Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu frá al­manna­vörn­um. 

Fyr­ir ligg­ur að um­fang skemmda er mikið og al­var­legt. Skemmd­irn­ar ná yfir um 300 metra kafla á lögn­inni.

Líkt og sjá má er kápan utan af leiðslunni stórskemmd.
Líkt og sjá má er káp­an utan af leiðslunni stór­skemmd. mbl.is/Ó​skar Pét­ur

Færst veru­lega úr stað

Í til­kynn­ing­unni seg­ir að á mynd­um sem tekn­ar hafa verið neðan­sjáv­ar sjá­ist að lögn­in hafi færst veru­lega úr stað. Sú staða geri mögu­leika á bráðabirgðaviðgerða erfiða. Eina var­an­lega lausn­in sé ný lögn. 

„Mik­il­vægt er að vinna mat á af­leiðing­um sem tak­markað rennsli vatns eða al­gert rof hefði á íbúa og starf­semi í Vest­manna­eyj­um og hrinda af stað mót­vægisaðgerðum til að koma í veg fyr­ir að neyðarástand skap­ist,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni. 

Ekki þörf á að spara vatn að svo komnu

Al­manna­varna­deild rík­is­lög­reglu­stjóra mun, í sam­ráði við lög­reglu­stjór­ann í Vest­manna­eyj­um, Vest­manna­eyja­bæ, HS veit­ur, viðbragðsaðila og aðra hagaðila, vinna á næstu dög­um að til­lög­um og fram­kvæmd­um því tengt. Mark­mið þeirr­ar vinnu er að tryggja ör­yggi og vel­ferð Vest­manna­ey­inga.

Að svo komnu er lögn­in enn not­hæf og þjón­ar vatnsþörf Vest­manna­eyja að fullu. Því er ekki þörf á að spara eða safna vatni að svo stöddu.

Frétt­in hef­ur verið upp­færð.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka