E. coli mengun greindist í vatnssýnum í Bolungarvík sem tekin voru fyrir helgi og hefur íbúum verið ráðlagt að sjóða neysluvatn.
Þetta staðfestir Anton Helgason, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða, en miðillinn bb.is greindi fyrst frá.
Að sögn Antons er ekki um verulega mengun að ræða. Greindist mengun í tveimur til þremur sýnum sem voru tekin. Á mánudaginn voru tekin ný vatnssýni og eru niðurstöður væntanlegar á næstu dögum.
Á heimasíðu bæjarfélagsins er íbúum ráðlagt að sjóða neysluvatn. Þá er tekið fram að starfsfólk vatnsveitu Bolungarvíkur hafi þegar gripið til aðgerða, yfirfarið allan búnað, skipt út perum í geislatæki og kannað hvort einhver möguleiki sé á að utanaðkomandi smit hafi átt sér stað í vatnslögnum bæjarins.
„Bolungarvíkurkaupstaður hefur þegar hafið framkvæmdir við nýja vatnsveitu, með nýrri hreinsistöð og vatnstönkum sem geta tekið við borholuvatni sem kæmi í stað yfirborðsvatns sem notað er í dag. Stefnt er að taka í notkun fyrsta hluta á nýrri vatnsveitu um mitt næsta ár.“