Landvinnsla er hafin á ný hjá Þorbirni í Grindavík

Jóhann telur að landvinnsla Þorbjarnar verði til að byrja með …
Jóhann telur að landvinnsla Þorbjarnar verði til að byrja með á milli 50-70% afköstum. Hann segir að fyrst um sinn standi til að pakka saltfiski í Grindavík en starfsemi Þorbjarnar hefur farið fram á þremur stöðum undanfarið: hjá Fiskkaupum í Reykjavík, Saltveri í Reykjanesbæ og Hafnarnesi VER í Þorlákshöfn. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er með fullan bíl af fólki á leiðinni inn í Grindavík núna.“

Þetta segir Jóhann Gunnarsson, í framleiðslu og markaðsmálum hjá Þorbirni hf., en starfsemi er í þann mund að hefjast á starfstöð fyrirtækisins í Grindavík eftir að heimild til veru í bænum hefur verið aukin en nú verður hægt að vera þar frá sjö á morgnana til fimm á daginn.

Sóttu fólk á bílum í dag en áætla að ferja það svo með rútu

Starfsfólk Þorbjarnar hefur eðlilega dreifst um talsvert stærra svæði en fyrir rýmingu Grindavíkurbæjar og segir Jóhann í samtali við mbl.is að ætlunin hafi verið að sækja fólk á rútu í morgun en það hafi ekki gengið upp. Því hafi lykilstarfsfólk sótt fólkið á nokkrum bílum en Jóhann segir að áætlað sé að fá rútu til að ferja starfsfólkið síðar í vikunni.

„Við hittumst á planinu hjá Fjarðarkaupum og nú eru fjórir bílar á leiðinni inn í Grindavík. Við ætluðum að ná í rútu en það hafðist ekki.“

Hjól atvinnulífsins eru aftur farin að snúast í Grindavík.
Hjól atvinnulífsins eru aftur farin að snúast í Grindavík. Ljósmynd/Aðsend

Áætla 50-70% afköst til að byrja með

Jóhann telur að landvinnsla Þorbjarnar verði til að byrja með á milli 50-70% afköstum. Hann segir að fyrst um sinn standi til að pakka saltfiski í Grindavík en starfsemi Þorbjarnar hefur farið fram á þremur stöðum undanfarið: hjá Fiskkaupum í Reykjavík, Saltveri í Reykjanesbæ og Hafnarnesi VER í Þorlákshöfn.

Stefnt sé að því að taka inn ferskan fisk til flökunar og vinnslu en þá verði bæði saltað niður og fryst en hann segir að rétt áður en rýmingin hafi farið fram í Grindavík hafi nýtt frystikerfi verið standsett þar en ekkert verið fryst í því enn.

„Við erum formlega hættir starfsemi hjá Fiskkaupum en við eigum enn eitthvað af fiski þar. Það verður vinnsla í dag í Saltveri en þar erum við að pakka flötnum fiski en svo er ráðgert að sú starfsemi komi inn í Grindavík á morgun.“ Segir Jóhann að ef allt gangi upp þá muni starfsemi fyrirtækisins leggjast af í Þorlákshöfn einnig og flytjast aftur inn í Grindavík.

Starfsfólk Þorbjarnar í þann mund að fara að stimpla sig …
Starfsfólk Þorbjarnar í þann mund að fara að stimpla sig inn á kunnugum slóðum á ný. Ljósmynd/Aðsend

Óvissa með hluta starfsfólksins

Hann segir að Þorbjörn hafi nú þegar tapað einhverju af fólki erlendis og ekki sé alveg vitað hvernig verði að ná þeim til baka.

„Fólki skortir húsnæði og við erum að reyna að finna lausnir fyrir hvern og einn. Við erum að útbúa tímabundnar vistarverur fyrir nokkra starfsmenn í húsnæði sem við eigum í Vogum á Vatnsleysuströnd og höfum reynt að halda utan um fólkið okkar alveg frá byrjun. Við þurftum jafnvel að finna fólk. Við fundum til dæmis einhverja fimm í fjöldahjálparstöð Rauða krossins á Selfossi,“ segir Jóhann.

David, starfsmaður í landvinnslu, virðist kampakátur með að vera kominn …
David, starfsmaður í landvinnslu, virðist kampakátur með að vera kominn aftur til vinnu í Grindavík. Ljósmynd/Aðsend

Eitt línuskip og einn ísfiskstogari en annar í smíðum

Þorbjörn hf. gerir út eitt línuskip og einn ísfiskstogara en Jóhann segir að á Spáni sé nýtt skip í smíðum og að skrokkurinn hafi verið sjósettur í gær.

„Hulda Björnsdóttir er ísfiskstogari sem er hannaður þannig að hægt verður að breyta honum í frystiskip ef einhverjar forsendur breytast.“

Að mestu leyti veiða skip Þorbjarnar þorsk að sögn Jóhanns en eitthvað af löngu einnig.

„Með nýja frystikerfinu verður mögulegt að taka inn ufsa, karfa og ýsu að auki.“

Afurðirnar fara að mestu til Spánar en eitthvað fer til Portúgal og smáræði til Ítalíu.

„Við erum svo sem ekki búnir að frysta neitt þannig að það er ekki komið til enn þá hvert við erum að senda það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert