Maður með hárkollu sagður hafa fylgst með nemendum

Foreldrar voru upplýstir um grunsamlegu mannaferðirnar.
Foreldrar voru upplýstir um grunsamlegu mannaferðirnar. mbl.is/Sigurður Bogi

Grunsamlegar mannaferðir voru við Norðlingaskóla í dag þar sem maður með ljósa hárkollu er sagður hafa fylgst grannt með ferðum nemenda. 

Þetta kemur fram í tölvupósti sem barst foreldrum nemenda skólans í dag. Aðalbjörg Ingadóttir, skólastjóri Norðlingaskóla, staðfestir þetta einnig í samtali við mbl.is.

Segir hún íbúa hafa látið skólastjórnendur vita af karlmanni sem fylgdist með ferðum nemenda á milli skólabygginga.

Var póstur sendur á foreldra í kjölfarið þar sem þeir voru upplýstir um gang mála og jafnframt beðnir um að vera vakandi yfir grunsamlegum mannaferðum í hverfinu.

Settist inn í bíl og tók hárkolluna niður

„Við viljum greina ykkur frá því að okkur voru að berast upplýsingar frá íbúa í hverfinu að grunsamlegar mannaferðir hefðu verið í hádeginu í dag við Brautaholt, skólahúsnæði miðstigs við Norðlingabraut,“ segir í póstinum til foreldra.

Íbúinn sem sá til mannsins sagði hann hafa fylgst grannt með ferðum nemenda á göngustígnum milli Bjallavaðs og Brautarholts, að því er fram kemur í póstinum.

„Viðkomandi var með ljósa hárkollu og þegar íbúinn fór inn í Brautarholt til að gera viðvart þá yfirgefur maðurinn svæðið, tekur niður hárkolluna og sest inn í bíl hjá öðrum manni á bílaplani við Bjallavað,“ segir jafnframt í póstinum.

Að sögn Aðalbjargar hefur skólinn haft samband við lögreglu vegna málsins og sagði hún íbúann einnig hafa ætlað að gera slíkt hið sama.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert