„Þykktin á mörnum er rétt í meðallagi, sem gefur vísbendingar um að veturinn verði mildur,“ segir Stefán Skafti Steinólfsson vélvirki á Akranesi.
Hann var á dögunum í heimahögum sínum í Ytri-Fagradal á Skarðsströnd í Dalasýslu og aðstoðaði þar við sauðfjárslátrun. Þar á bæ er hefð fyrir því að lesa í garnir þess fjár sem er fellt og lesa vel í. Sé mikið um gor í smágirni og mörinn mikill er það ætlan fólks að fram undan séu harðindi og vetrarhörkur. Raunin var önnur nú.
„Að lesa í mör og garnir er nokkuð sem tíðkast hefur í minni sveit í margar kynslóðir. Þetta er kúnst sem ég lærði af mínu fólki; ömmu, afa og foreldrum mínum, þeim Hrefnu Ólafsdóttur og Steinólfi Lárussyni. Pabbi fylgdist vel með táknum í dýralífi og náttúru og fékk þannig vísbendingar sem oft gengu upp. Ég held mig við hans fræði og heima í sveitinni minni eru innyflin úr fyrsta sláturlambinu greind sérstaklega vel,“ segir Stefán Skafti sem er löngum vestur á Skarðsströnd og fylgist vel með öllu þar.
Nánar er fjallað um mýsnar og mörinn í Morgunblaðinu í dag.