Yfirskattanefnd felldi í lok október úrskurð í máli framkvæmdastjóra og stjórnarmanns auglýsingafyrirtækið sem varðaði frádráttarbærni ferðakostnaðar í skattskilum félagsins. Ekki var talið að maðurinn hefði sýnt fram á frádráttarbærni kostnaðar vegna þriggja ferða hans og fjölskyldu hans til Frakklands á Evrópumót karla í knattspyrnu sumarið 2016.
Var m.a. bent á í því sambandi að engin gögn hefðu komið fram til stuðnings skýringum kæranda um rekstrarlegt tilefni ferðanna.
Yfirskattanefnd komst að þeirri niðurstöðu í úrskurðinum, sem féll 27. október, að útgjöld vegna ferðanna hefðu ranglega verið færð í búning rekstrarkostnaðar hjá fyrirtækinu. Maðurinn var ásamt eiginkonu sinni óbeinn eigandi alls hlutafjár í félaginu.
Utanlandsferðir í júní og júlí voru farnar á EM sem fór fram í Frakklandi sumarið 2016. Nánar tiltekið var um þrjár ferðir að ræða. Þátttakendur í fyrstu ferðinni voru maðurinn, eiginkona hans og börn þeirra á grunnskólaaldri. Þessi ferð stóð þá daga sem leikið var í riðlum, og var farið til Íslands daginn eftir síðasta leik. Maðurinn fór einn í aðra ferðina sem hófst þann dag sem íslenska liðið lék í 16 liða úrslitum og lauk með heimferð daginn eftir. Öll fjölskyldan fór í þriðju ferðina á leik íslenska liðsins í átta liða úrslitum.
Samkvæmt skýringum mannsins til ríkisskattstjóra voru ferðir þessar ein tegund markaðssetningar, þ.e.a.s. viðskiptaöflun með sýnileika fyrirsvarsmanna fyrirtækisins.
Farið hafi verið á EM2016 í því skyni að sjást og sjá aðra. Tengslanetið hafi verið virkjað grimmt í ferðinni. Farið hafi verið í hópferð þar sem mikið hafi verið af viðskiptavinum sem þó hafi greitt fyrir sig sjálfir. Fulltrúar fyrirtækisins hafi verið mjög sýnilegir með öflug sæti innan um þá fjölmörgu viðskiptaforkólfa sem þarna hafi verið saman komnir. Ferðirnar hafi borið ávöxt og stuðlað að a.m.k. tveimur nýjum viðskiptavinum.
Yfirskattanefnd kemst aftur á móti að þeirri niðurstöðu, sem fyrr segir, að ekkert hafi komið fram af hálfu kæranda sem bendi til þess að til hafi fallið aukakostnaður í ferðum þessum sem beinlínis hafi stafað af erindum í þágu rekstrarins.
„Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið þykir ekki hafa verið sýnt fram á frádráttarbærni umræddra útgjalda vegna ferða til Frakklands í júní og júlí 2016 og er kröfu þar að lútandi hafnað,“ segir í úrskurðinum.
Einnig var deilt um frádrátt kostnaðar vegna ferðar til Dubaí og Víetnam, en ríkisskattstjóri hafði fallist á gjaldfærslu hluta kostnaðar vegna hennar. Þar sem sú breyting ríkisskattstjóra var ekki talin svo skýr og markviss sem skyldi auk þess sem forsendur embættisins voru ekki taldar fá staðist að öllu leyti var breytingin felld úr gildi.
Í öðrum úrskurði, sem tengist sama manni og féll jafnframt 27. október, var deilt um skattlagningu bifreiðahlunninda vegna ætlaðra einkanota mannsins af tveimur bifreiðum í eigu fyrirtækisins, en maðurinn mótmælti því að hafa haft bifreiðar þessar til umráða báðar á sama tíma. Önnur bifreiðin var af gerðinni Peugeot en hin var Mercedes-Benz.
Í úrskurði yfirskattanefndar í málinu kom fram að þótt launamaður teldist hafa ótakmörkuð umráð yfir fleiri en einni bifreið launagreiðanda á sama tíma væri ekki sjálfgefið að reikna bæri sjálfstætt hlunnindafjárhæð vegna hverrar bifreiðar og leggja þær fjárhæðir saman, enda gæti slíkt leitt til ótækrar niðurstöðu í ýmsum tilvikum.
Að þessu gættu var talið að ríkisskattstjóra hefði borið að rökstyðja sérstaklega ákvörðun bifreiðahlunninda kæranda með skattlagningu fullra hlunninda vegna beggja bifreiðanna vegna sama tíma. Vegna skorts á rökstuðningi að þessu leyti var ákvörðun ríkisskattstjóra felld úr gildi að því marki sem hún tók til fleiri en einnar bifreiðar. Hins vegar var talið rétt að miða hlunnindamatið við dýrari bifreiðina, þ.e. Benz-bifreiðina.