Öryrkjabandalagið, ÖBÍ, er andsnúið frumvarpi til laga um breytingu á póstþjónustu og bendir á að mikilvægt sé að fólk sem erfitt eigi um vik vegna fötlunar sinnar muni áfram eiga þess kost að fá póst borinn út á heimili sín. Leggja samtökin áherslu á að frumvarpið verði endurskoðað m.t.t. þessa og að fundin verði lausn á því hvernig póstþjónustan verði útfærð.
Þetta kemur fram í umsögn ÖBÍ um frumvarpið sem endurflutt hefur verið á Alþingi. Lýsa samtökin sig reiðubúin til að koma að vinnu við endurskoðun þess. Inntak frumvarpsins er að póstþjónustunni verði heimilað að setja upp póstbox fyrir alla móttakendur pósts í þéttbýli og þannig verði hætt að bera út póst á heimili.
„Við skiljum að það verður að vera þróun í þessum málaflokki en það er margt sem verður að gera áður en þessi leið er farin,“ segir Bergur Þorri Benjamínsson, formaður aðgengishóps ÖBÍ, í samtali við Morgunblaðið.
„Ég held að það séu draumórar hjá yfirvöldum og póstinum að ætla fötluðu fólki að ná í bréf sín og pakka í póstbox eða á aðra slíka staði. Það verður að taka tillit til sérstöðu fatlaðra. Það er hægt að hætta póstdreifingu til 88% þjóðarinnar en það verður að finna lausn gagnvart þeim 12% sem eru fötluð,“ segir Bergur Þorri.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag.