Skoða nýjan virkjunarmöguleika í Ölfusdal

Sækja á um rannsóknarleyfi vegna nýtingar jarðvarma í Ölfusdal. Á …
Sækja á um rannsóknarleyfi vegna nýtingar jarðvarma í Ölfusdal. Á þessu korti er það merkt til skoðunar fyrir jarðvarmanýtingu, en nú er ljóst að sækja á um rannsóknarleyfi á svæðinu. Kort/mbl.is

Orkuveita Reykjavíkur, sveitarfélagið Ölfus og Orkufélagið Títan, sem er í eigu Ölfuss, ætla að sækja saman um rannsóknarleyfi um nýtingu jarðhita í Ölfusdal ofan Hveragerðis. 

Þetta var upplýst á fundi Orkuveitunnar og sveitarfélagsins nú rétt í þessu.

Í máli Sævars Freys Þráinsson, forstjóra OR, kom fram að möguleg nýting jarðvarmans myndi nýtast íbúum Ölfuss og Hveragerðis.

Hera Grímsdóttir, framkvæmdastjóri rannsókna og nýsköpunar hjá OR, sagði að Ölfusdalur væri ríkur af jarðhitaauðlindum, en að hægt væri að nýta auðlindina betur. Sagði hún að uppi væru áform um að hægt væri að framleiða bæði rafmagn og heitt vatn í dalnum. Sagði hún að rannsóknirnar myndu leiða í ljós hversu mikið væri hægt að framleiða á svæðinu.

Þá sagði hún að vegna óvissu um viðbrögð jarðhitakerfa við vinnslu hefði ekki þótt sniðugt að óskyldir aðilar væru að nýta varmann úr sama kerfi, en OR rekur þegar virkjanir á Hellisheiði og Nesjavöllum.

Á fundinum var skrifað undir viljayfirlýsingu milli OR og sveitarfélagsins Ölfus. Fram kom á fundinum að í því fælist að sveitarfélagið og OR séu að snúa bökum saman í þeim sameiginlegu markmiðum sínum að nýta orkuauðlindirnar sem þeim er treyst fyrir með ábyrgum og hagkvæmum hætti.

Hera Grímsdóttir, framkvæmdastjóri rannsókna og nýsköpunar hjá OR, Guðlaugur Þór …
Hera Grímsdóttir, framkvæmdastjóri rannsókna og nýsköpunar hjá OR, Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Elliði Vignisson bæjarstjóri í Ölfusi og Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Orkuveitunnar. Ljósmynd/OR

Fáist rannsóknarleyfið með forgang að nýtingu er fyrirhugað að skrifa undir viljayfirlýsingu um nýtingu jarðhitaauðlindarinnar til framleiðslu á rafmagni og heitu vatni með ábyrgum hætti og lágmörkun umhverfisáhrifa að leiðarljósi, að því er segir í tilkynningu frá Orkuveitunni. Einnig er lögð áhersla á að afurðir frá virkjuninni verði nýttar til verðmætasköpunar fyrir nærsamfélagið, Ölfus og Hveragerði.

Hægt er að sjá upptöku af blaðamannafundinum þar sem þessi áform voru kynnt hér að neðan.


 

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert