Vinna við landfyllingu við Langeyri í Súðavík er í fullum gangi en þar kemur Íslenska kalkþörungafélagið til með að byggja upp starfsemi.
„Þessi 38 þúsund fermetra landfylling er undir okkar verksmiðju og efnistökusvæði ásamt bryggju. Þegar landfyllingin verður tilbúin munum við byggja þarna hús sem verður nokkur þúsund fermetrar og fyllum af græjum til að vinna kalkþörunga úr Ísafjarðardjúpi,“ segir Halldór Halldórsson forstjóri fyrirtækisins.
Vinna við landfyllinguna hófst fyrr á árinu með efni sem fékkst við dýpkunarframkvæmdir í Skutulsfirði en Súðavík er í næsta firði, Álftafirði. Þessa dagana er verið að setja efni yfir landfyllinguna sem fæst á Súðavíkurhlíðinni.
Nú er verið að setja möl ofan á sandinn sem var dælt upp í Skutulsfirði í sumar. Þegar framkvæmdum við landfyllinguna lýkur er beðið eftir jarðsigi í tvö ár eða svo að sögn Halldórs áður en hafist er handa við að byggja húsnæðið. Líklega fer starfsemin í gang 2027 eða 2028 í fyrsta lagi.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.