„Þá vorum við alveg á nippinu stundum“

Jakob ásamt Láru Theodóru Magnúsdóttur í flugstjórnarklefanum. Fram undan er …
Jakob ásamt Láru Theodóru Magnúsdóttur í flugstjórnarklefanum. Fram undan er útsýni sem hann er orðinn býsna vanur eftir um fjóra áratugi á flugi. Ljósmynd/Landhelgisgæsla Íslands

„Það var nú bara af því að örlögin höguðu því þannig,“ svarar Jakob Ólafsson, sem í gær lét af störfum sem flugstjóri hjá Landhelgisgæslu Íslands, á 65 ára afmælisdaginn, en eldri en það leyfist atvinnuflugmönnum ekki að verða í starfi.

Jakob er í góðu yfirlæti á Sikiley þegar mbl.is nær tali af honum en þar lenti hann eftirlitsvélinni TF-SIF í síðasta sinn í gær – á flugvellinum í Cataniu.

Jakob tók sinn fyrsta flugtíma árið 1976 við Flugskóla Helga Jónssonar á Reykjavíkurflugvelli. „Ég hugsaði þetta nú bara sem sport og ætlaði að klára einkaflugmannsprófið, ég var ekkert að stefna á að hafa þetta að atvinnu,“ segir Jakob sem kann einnig sögu af því hvernig áhuginn á þyrluflugi kviknaði.

Fylgdist með leit í svartamyrkri

„Þá var ég á togara úti af Vestfjörðum og við vorum að leita að flugvél sem týndist í hafinu. Þar var þyrla við leit og þá kviknaði einhver áhuga á að prófa þetta þrátt fyrir að þyrlurekstur á Íslandi hafi gengið illa og verið tíð slys,“ rifjar Jakob upp og kveðst aðspurður telja að leitin á togaranum hafi verið um eða rétt upp úr 1980.

Þá hafi flugvél tekið á loft frá Suðureyri og ekkert til hennar spurst eftir það. „Hún fannst aldrei,“ segir Jakob sem á þessum tíma var togarasjómaður en þó kominn vel af stað í fluginu. „Ég fylgdist með þyrlunni leita þarna í svartamyrkri og hugsaði með mér að það væri nú gaman að prófa þetta þrátt fyrir allt,“ segir hann, „mig langaði alltaf að verða bóndi en þetta endaði svona.“

Í góðu yfirlæti um borð í TF-SIF. Jakob hóf feril …
Í góðu yfirlæti um borð í TF-SIF. Jakob hóf feril sinn hjá Gæslunni á TF-SIF 1987 og lauk honum á allt annarri TF-SIF í gær. Ljósmynd/Landhelgisgæsla Íslands

Það sem „endaði svona“, eins og flugstjórinn fyrrverandi orðar það, hófst fyrir alvöru í Texas í Bandaríkjunum, í flugskóla skammt frá Fort Worth. „Ég kom svo heim og þá var nú fátt um fína drætti að fá vinnu við þyrluflugið þannig að ég ákvað þá að taka atvinnuflugmannspróf á flugvél og byrjaði svo að kenna, hafði reyndar litla reynslu en maður lærir ótrúlega mikið af því að kenna,“ segir Jakob af atvinnumálum í fluginu á níunda áratug aldarinnar sem leið.

Slys í Ljósufjöllum og á Ísafjarðardjúpi

Hann kenndi hjá Suðurflugi í Keflavík en einnig í flugskóla í Reykjavík auk kennslu víða á landsbyggðinni. „Þegar ég fékk svo loks vinnu við að fljúga fór ég til flugfélagsins Ernis á Ísafirði. Þar urðu slys, bæði í Ljósufjöllum og á Ísafjarðardjúpi, og í framhaldi af því fékk ég vinnu hjá Landhelgisgæslunni árið 1987,“ segir Jakob frá.

Eins og hann lauk ferli sínum á eftirlitsflugvélinni TF-SIF hóf hann ferilinn hjá Gæslunni einnig á TF-SIF sem var hins vegar þyrla á þeim tíma, keypt árið 1985 og hentaði íslenskum aðstæðum allt annað en vel.

Þyrlukosturinn hefur tekið stórstígum breytingum gegnum áratugina og öryggismál í …
Þyrlukosturinn hefur tekið stórstígum breytingum gegnum áratugina og öryggismál í öllu betra horfi nú en á níunda áratugnum. Oft tefldu áhafnir gömlu TF-SIFjar nánast í tvísýnu en alltaf blessaðist það. Ljósmynd/Landhelgisgæsla Íslands

„Þetta var lítil þyrla sem réð illa við veður og vinda, hafði engan afísingarbúnað og var lítil og þröng, hún er á safni á Akureyri núna. En meðan við vorum að læra á hana þótti okkur þetta góður gripur, sem hún jú var, en það var oft verið að vinna á ystu nöf, útköllin á þessum tíma gátu verið erfið,“ segir Jakob af þyrlukostinum fyrir hátt í fjórum áratugum.

„Hipsum-haps hvort náðist í lækni“

TF-SIF var eina þyrlan sem Landhelgisgæslan hafði á að skipa þar til Super Puma-þyrlan TF-LÍF kom til skjalanna árið 1995. „Þá varð algjör bylting, það var vél sem hafði miklu meira mótorafl og rými til að sinna sjúklingum, var með afísingarbúnað og réð bara miklu betur við allar aðstæður, eins og þessar þyrlur sem eru hjá Gæslunni í dag, öryggið stórjókst og getan með því,“ rifjar hann upp.

Hvað voruð þið margir í áhöfn á þessum tíma, á meðan TF-SIF var eina þyrlan?

„Upphaflega vorum við bara þrír eiginlega, þá voru engar vaktir hjá læknum og bara hipsum-haps hvort náðist í lækni. Þá var verið að þróa vinnulagið við að manna þetta almennilega og menn voru þarna mikið til í sjálfboðavinnu nema flugmennirnir og einn stýrimaður. Á endanum gekk það svo eftir að hafa lækna líka í áhöfn, ég man ekki alveg hvenær það gerðist og þeir fóru að taka vaktir,“ segir Jakob af horfnum tíma.

Jakob flaug sitt síðasta flug í gær, til Sikileyjar þar …
Jakob flaug sitt síðasta flug í gær, til Sikileyjar þar sem hann spókar sig nú í nýrisinni sól eftirlaunaáranna. Nú tekur búskapurinn við. Ljósmynd/Landhelgisgæsla Íslands

Vantar bara fleiri flugmenn

Aðspurður kveðst hann ekki geta gert upp á milli útkalla eða sagt frá sérstaklega eftirminnilegum útköllum. „Það eru nú aðallega þeir sem þurftu á þjónustunni að halda sem maður hugsar til og þeir sem fengu farsæla lausn sinna mála,“ segir Jakob en játar þó að sum útköllin fyrir löngu hafi hreinlega verið tvísýn vegna öryggismála.

„Það var aðallega gamla TF-SIF, þá vorum við alveg á nippinu stundum en það blessaðist alltaf,“ segir flugmaður með áratugareynslu sem man tímana tvenna – að minnsta kosti. Vélarnar nú til dags og aðbúnaður allur séu þannig að flugáhafnir Gæslunnar ráði við flestar aðstæður. Skórinn kreppir hins vegar á öðrum stað að sögn Jakobs.

„Það vantar bara fleiri flugmenn í áhöfn. Þeir hafa nú verið að reyna að vinna úr því en það hefur verið svolítill bardagi að manna þetta þannig að það séu alltaf tvær þyrlur til taks allan sólarhringinn allt árið um kring, það hefur ekki alltaf gengið vel fyrir sig.“

Þeir eru sem sagt fáir sem leggja fyrir sig þyrluflugið?

„Það er náttúrulega miklu minna um það, þetta er fokdýrt nám og atvinnumöguleikar miklu minni, alla vega hér á landi, miðað við venjulegar flugvélar, en það eru alltaf einhverjir sem eru tilbúnir í að leggja í þetta sem betur fer,“ svarar Jakob sem segir áhugasama líklega nú þurfa að leita út fyrir landsteinana á ný til að ljúka því námi sem veitir réttindi til þyrluflugs.

Hross og bílar í Borgarfirði

„Það var einhver möguleiki á kennslu heima á tímabili en ég þekki ekki hvernig þetta er núna, það er enginn sérstakur skóli sem er að kenna á þyrlu þannig að ég held að menn séu að fara utan til að læra þetta,“ bætir hann við.

Ein frá liðnum árum enda af nógu myndefni að taka …
Ein frá liðnum árum enda af nógu myndefni að taka þegar litið er yfir áratugaferil Jakobs hjá Landhelgisgæslunni. Ljósmynd/Landhelgisgæsla Íslands

Senn líður að lokum þessa spjalls og nánast skylduspurning að tefla fram hvernig tilfinningin sé að stíga út úr flugstjórnarklefanum í hinsta sinn eftir 36 ár hjá sama vinnuveitanda – nánast hálfan mannsaldur – og enn lengri feril við flug og kennslu er allt er talið.

„Jú, þetta er náttúrulega dálítið sérstakt. Ég var náttúrulega kominn á þægilegri stað, ég hætti á þyrlunum 2014 og fór yfir á flugvélina, var þá mikið í útlöndum að fljúga – maður datt inn í ýmis störf á Miðjarðarhafi og við Afríku fyrir Frontex [Landamærastofnun Evrópusambandsins] og líka þarna fyrst eftir hrunið þegar farið var að leigja flugvélina út, þá var ég hvort tveggja á henni og þyrlunum, en maður hefur klárlega nóg að sýsla við í framhaldinu,“ svarar Jakob.

Hann kveðst ætla að halda upp í Borgarfjörð þar sem hann eigi hross og gamla bíla. Jakob á tvær dætur og fjögur barnabörn en eiginkona hans er Violeta Tolo Torres.

 „Svo er það heyskapurinn og ég er í skógrækt líka,“ segir flugstjórinn margreyndi og játar að gamli bóndadraumurinn hafi ræst að lokum – að einhverju leyti. „Ég náði í ættaróðal þannig að nú get ég sinnt þessu eins og ég ætlaði mér í upphafi,“ segir Jakob Ólafsson að lokum úr sólinni á Sikiley.

Síðasta flugferð Jakobs Ólafssonar, að minnsta kosti við stýri flugvélar …
Síðasta flugferð Jakobs Ólafssonar, að minnsta kosti við stýri flugvélar í atvinnuskyni. Ljósmynd/Landhelgisgæsla Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert