Vill klára málið sem fyrst

Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri.
Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Maður skynjar að það er fullur vilji stjórnvalda til að klára þetta mál. Það er mikilvægt að þetta klárist vegna þess að því miður eru fjölmörg dæmi sem undirstrika mikilvægi þess.”

Þetta segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, um lagafrumvarp sem hann segir að muni auðvelda slökkviliðsmönnum störf sín.

Engin skráningarskylda er núna gagnvart þeim sem leigja út atvinnuhúsnæði til búsetu. Í frumvarpinu eru húseigendur skyldaðir til að gera grein fyrir búsetu og fjölda þeirra sem þar eru. Með því að vera skyldaðir til að skrá sig í þjóðskrá hefði slökkviliðið aðgang að upplýsingunum. Þetta yrði varanlegri lausn en að gera stöðugt kannanir eða úttektir á húsnæði.

Viðbragðsaðilar við Stangarhyl.
Viðbragðsaðilar við Stangarhyl. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta ætti að auðvelda okkur okkar vinnu,” segir Jón Viðar, en stutt er síðan eldsvoði varð í Stangarhyl. Einn liggur þungt haldinn á sjúkrahúsi vegna hans.  

Kortlagning fór fram á búsetu í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu á árunum 2021 og 2022 í kjölfar bruna við Bræðraborgarstíg 1 þar sem þrjú létust sumarið 2020.

„Sú vinna, sem er búin að vera mjög þétt frá þeim tíma, er komin í lagafrumvarp sem ég hef fulla trú á að verði afgreitt fyrir jól. Stjórnvöld og sveitarfélög eru algjörlega á því að það þurfi að gera breytingar á lagaumhverfinu,” bætir hann við.

Mega fara inn í bráðri hættu

Í frumvarpinu er einnig skerpt á ákvæði um leyfi eftirlitsaðila til að fara inn í íbúðarhúsnæði samkvæmt úrskurði dómara. Ákvæðið snýst um að ef eigandi neitar að hleypa eftirlitsaðilum inn fær dómarinn þriggja sólarhringa frest til þess að svara, en engin slík tímamörk hafa hingað til verið varðandi þetta, að sögn Jóns Viðars.

Einnig er í frumvarpinu fráviksákvæði um að ef slökkviliðsstjóri metur að bráð hætta er í gangi getur slökkviliðið farið inn í húsnæðið án þess að úrskurður dómara liggur fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert