Vill synda hratt í gegnum sírópsfen leyfisveitinga

Fólk féllst í faðma að lokinni undirritun í dag.
Fólk féllst í faðma að lokinni undirritun í dag. mbl.is/Ólafur

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi og framkvæmdastjóri Orkufélagsins Títan, segir mikilvægt fyrir sveitarfélagið að sitja við borðið þegar verið er að véla með hagsmunamál þess.

Orku­veita Reykja­vík­ur, sveit­ar­fé­lagið Ölfus og Orku­fé­lagið Tít­an, sem er í eigu Ölfuss, ætla að sækja sam­an um rann­sókn­ar­leyfi um nýt­ingu jarðhita í Ölfus­dal ofan Hvera­gerðis.

Einlægur vilji að sitja við borðið

Segir Elliði í samtali við mbl.is að orkumálin séu sannarlega meðal helstu hagsmunamála sveitarfélagsins og að samstarfið við Orkuveitu Reykjavíkur skilji á milli feigs og ófeigs. Vonast hann til að hægt verði að synda hratt í gegnum sírópsfen leyfisveitinga sem ríkið hefur búið til í kringum orkunýtingu.

„Það er okkar ásetningur og einlægur vilji að sitja við borðið þegar verið er að véla með hagsmunamál sveitarfélagsins. Þetta er mjög góður dagur og fyrir okkur er það mikilvægt að stíga dálítið fram fyrir skjaldarrendur.“

Segir Elliði að sveitarfélagið Ölfus muni sitja við borðið í nafni Orkufélagsins Títan.

„Að fá til liðs við okkur fyrirtæki eins og Orkuveitu Reykjavíkur og hafa þannig aðgengi að þekkingu og reynslu sker á milli feigs og ófeigs í þessum málum,“ segir Elliði.

Hann segir að hugur manna standi til að hefja samstarfið í Ölfusdalnum sem sé þekkt orkusvæði og þegar í nýtingu.

„Orkan sem nýtt er í Hveragerði kemur öll af þessu svæði þannig að Hvergerðingum er að góðu kunnugt hversu mikilvægt þetta orkusvæði er. Við höfum líka rætt að þetta sé fyrsta skrefið af mörgum mögulegum samstarfsverkefnum.

Þarna aðeins norðar er staður sem heitir Ölkelduháls og þar er gríðarlega mikil orka sem við höfum hug á að skoða að nýta í framhaldinu. Títan er líka í viðræðum við fleiri orkufyrirtæki um nýtingu á svæðum nær Þorlákshöfn þannig að þetta er fyrsta skrefið á langri vegferð.“

Elliði segir Títan helst hafa verið að horfa til jarðvarmavirkjana.

„Það er sú leið sem við þekkjum hvað best. Það eru einnig fjórir orkukostir hvað vind varðar í sveitarfélaginu; einn hjá Wind Power Deutschland, tveir hjá Orkuveitu Reykjavíkur og einn hjá Sapphire. Það gildir sama um þá auðlindanýtingu og aðra að samkvæmt orku- og auðlindastefnu sveitarfélagsins Ölfuss þá fer slíkt ekki fram nema það sé til hagsbóta fyrir íbúa á svæðinu. Trúi því að við tökum vel á móti fólki og gefum færi á að sýna okkur fram á hvort þetta nýtist okkur eða ekki.“

Sævar Freyr skrifar undir og Elliði fylgist spenntur með.
Sævar Freyr skrifar undir og Elliði fylgist spenntur með. mbl.is/Ólafur

18 mánuðir frá ákvörðun þar til kveikt var á túrbínunum

Spurður um hugsanlega tímalínu segist Elliði hafa bent ráðherra á það við tilefnið að árið 1921 þegar fyrsta virkjunin var stofnuð tók það 18 mánuði frá ákvörðun þar til kveikt var á túrbínunum.

„Við þurfum að fara að feta okkur út úr þessari sírópssundlaug sem við erum búin að koma öllu leyfisveitingakerfi í á Íslandi. Við þurfum að sjálfsögðu að synda í gegnum það sírópsfen sem ríkið hefur búið til í kringum orkunýtingu en með þeim fyrirvara viljum við vinna þetta hratt og núna vonandi í næstu viku sendum við inn beiðni til Orkustofnunar um orkunýtingarleyfi.

„Það verður vonandi afgreitt hratt og örugglega því við erum þegar komin með notendur þessarar orku. Þetta snýst fyrst og fremst um leyfisveitingaferlið, hversu langan tíma það tekur og sömuleiðis þurfum við að finna leiðir til að gera þetta í sátt við íbúa í nærsamfélaginu.

Það verður rík áhersla hjá okkur að stíga þannig fram að þetta sé til hagsbóta fyrir íbúa, að þeir séu meðvitaðir að þessu fylgir velferð en ekki ógn og með þessum fyrirvara reynum við að vinna hratt og örugglega.“

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku og loftslagsráðherra, var vottur við …
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku og loftslagsráðherra, var vottur við undirritunina. mbl.is/Ólafur

Huga að orkuöryggi í miklu stærra samhengi

Sæv­ar Freyr Þrá­ins­son, for­stjóri Orku­veitu Reykja­vík­ur, segir að ef þetta samstarf sé sett í enn stærra samhengi og horft sé til Reykjanesskagans og þeirra atburða sem þar eru í gangi þurfi að huga að orkuöryggi í miklu stærra samhengi.

„Þá er ég ekki eingöngu að tala um raforku heldur er mikilvægi hitaveitunnar að vera mun sýnilegra öllum og þegar við horfum til þess að það sé verið að spá því að hér séu möguleg eldsumbrot að ganga yfir á svæðinu frá Reykjanesskaga og inn á Hengil þar sem þetta svæði er þá þurfum við að hugsa um orkuöryggi í allt öðru samhengi en nokkurn tímann áður.

Segir hann að Íslendingar sem þjóð verði að snúa bökum saman af því að á þessum hluta landsins sé mjög stór hluti íbúa.

„Í augnablikinu erum við ekki komin með svörin til að tryggja öryggi fyrir alla íbúa ef þarna yrðu til dæmis eldsumbrot eftir 3 ár eða 397 ár, við vitum ekki hvenær það getur verið en við þurfum að vinna markvisst að því að horfa á þetta í þessu samhengi.“

Segir hann það kalla á markvissa vinnu og undirbúning og að sú vinna muni taka tíma.

„Ég treysti því að þið blaðamenn munið halda okkur við efnið og eftir svona ár verðum við komin með skarpa aðgerðaráætlun um það hvernig við ætlum að vinna að þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka