Andlát: Þorsteinn Sæmundsson

Þorsteinn Sæmundsson.
Þorsteinn Sæmundsson.

Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur lést 26. nóvember, 88 ára að aldri. Þorsteinn fæddist í Reykjavík 15. mars 1935. Foreldrar hans voru Sæmundur Stefánsson heildsali og Svanhildur Þorsteinsdóttir húsfreyja og rithöfundur. Þau áttu annan son, Stefán, sem var flugmaður. Þau skildu. Með seinni konu sinni eignaðist Sæmundur þrjú börn sem eru hálfsystkin Þorsteins: Sæmund, Unni og Geir.

Þorsteinn tók landspróf í Gagnfræðaskóla Vesturbæjar 1950 og stúdentspróf í Menntaskólanum í Reykjavík 1954. Það ár fór hann til náms við háskólann í St. Andrews í Skotlandi og lauk B.Sc. Honours-prófi þaðan 1958 með stjörnufræði sem aðalgrein en stærðfræði, eðlisfræði og jarðfræði sem hliðargreinar. Frá 1958 til 1962 stundaði hann rannsóknir við stjörnuturn Lundúnaháskóla og lauk doktorsprófi (Ph.D.) þaðan 1962. Sérsvið Þorsteins var áhrif sólar á jörð.

Eftir heimkomu til Íslands 1963 hóf Þorsteinn starf við Eðlisfræðistofnun Háskólans sem síðar stækkaði í Raunvísindastofnun Háskólans. Hann sat í fyrstu stjórn stofnunarinnar frá 1966-1967 sem forstöðumaður jarðeðlisfræðistofu. Þorsteinn varð deildarstjóri háloftadeildar og sá um rekstur segulmælingastöðvar háskólans frá 1963 til starfsloka. Hann sá um rekstur norðurljósamyndavéla á Rjúpnahæð, við Egilsstaði og þeirra sem Pólrannsóknastofnun Japans kom hér upp. Þá annaðist Þorsteinn útreikning og útgáfu Almanaks Háskólans í sextíu ár, þar af 19 ár með öðrum.

Þorsteinn gegndi mörgum trúnaðarstörfum á sínum ferli og átti meðal annars sæti í Rannsóknarráði ríkisins 1969-1973 og Háskólaráði 1972-1974. Þá var hann einn af stofnendum Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness og jafnframt fyrsti formaður þess. Þorsteinn var afkastamikill í skrifum fræðigreina og lét sig samfélagsmál varða með ritun fjölda greina í blöð og tímarit.

Eftirlifandi eiginkona Þorsteins er Guðný Sigrún Hjaltadóttir. Þau eignuðust tvö börn, Mána og Svanhildi, Þá átti Þorsteinn uppeldisson, Hákon Þór Sindrason, sem er sonur Guðnýjar. Þorsteinn lætur eftir sig fjögur barnabörn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka