Björn tjáir sig ekki frekar

Þingkonan var handtekin aðfaranótt laugardags.
Þingkonan var handtekin aðfaranótt laugardags. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Björn Leví Gunnarsson, varaþingflokksformaður Pírata, hyggst ekki ræða handtöku Arndísar Önnu K. Gunnarsdóttur, þingkonu flokksins, við mbl.is.

Þá hefur Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingflokksformaður ekki svarað.

Eins og greint var frá um helgina var Arndís Anna handtekin á skemmtistaðnum Kíkí aðfaranótt laugardags. Í samtali við mbl.is á sunnudaginn sagði þingkonan ástæðu handtökunnar vera sú að hún hefði verið of lengi á salerni skemmtistaðarins.

„Dyra­verðir óskuðu eft­ir aðstoð. Dyra­verðir voru bún­ir að snúa mig niður vegna þess að það átti að henda mér út fyr­ir að hafa verið of lengi á sal­ern­inu, það er bara svo­leiðis,“ sagði hún.“

Viðbrögð dyravarða mjög hörð

Í samtali við Vísi á mánudaginn sagði Björn Leví viðbrögð dyravarða hafa verið mjög hörð. Málið hafi verið rætt innan þingflokksins og telur hann að það muni ekki hafa afleiðingar.

Í yfirlýsingu sem Arndís Anna sendi á fjölmiðla síðar á mánudag sagði hún hegðun sína ekki hafa verið sér til sóma. Hún hafi verið búin að drekka of mikið og brást illa við þegar dyra­verðir höfðu af henni af­skipti. 

Ég var búin að drekka of mikið og brást illa við þegar dyra­verðir opnuðu hurðina á kló­sett­inu, ég var dóna­leg og streitt­ist á móti. Óháð öllu öðru, var hegðun mín ekki til fyr­ir­mynd­ar. Ég hef beðið hlutaðeig­andi af­sök­un­ar á fram­komu minni.

Þegar mbl.is leitaði viðbragða hjá Birni Leví í kjölfar yfirlýsingarinnar, til að spyrja hvort hann drægi gagnrýni sína á dyraverði skemmtistaðarins til baka, kvaðst hann ekki vilja tjá sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert