„Við höfum áhyggjur af þessum börnum sem nú eru einhvers staðar í pössun,“ segir Sjak R. Haaheim í samtali við mbl.is, lögmaður barnsföður Eddu Bjarkar Arnardóttur, sem nú hefur verið handtekin í krafti norrænnar handtökuskipunar og mun að sögn Haaheim svara til saka fyrir Héraðsdómi Telemark á nýju ári.
Beiðnina til almennings á hér á landi, sem Leifur Runólfsson, lögmaður barnföðurins á Íslandi, hefur nú sent fjölmiðlum, segir Haaheim að taka beri alvarlega, þeir sem feli eða hýsi fórnarlömb mannráns geti bakað sér refsiábyrgð sem samverkamenn.
„Það sem gerist núna er að hún [Edda] verður flutt til Noregs og hér verður rekið refsimál gegn henni sem getur lyktað með fangelsisdómi,“ segir lögmaðurinn og kveðst munu hafa uppi skaðabótakröfu fyrir hönd föðurins í málinu. „Hann hefur borið umtalsverðan kostnað af ítrekuðum ferðum til og frá Íslandi vegna þessa máls.“
Væntirðu fangelsisdóms í málinu?
„Já, það er algjörlega vanalegt í málum á borð við þetta, óskilorðsbundið fangelsi, og hún hefur þegar hlotið sex mánaða dóm í fyrri hluta þessa máls árið 2019. Hér er því um ítrekun brots að ræða sem eykur alvarleika þess,“ svarar Haaheim sem vill helst ekki hafa uppi getgátur um væntanlega refsingu en vísar til komandi fordæmis í öðru máli sem hann rekur.
„Það er fyrir lögmannsrétti núna [norska millidómstiginu], sambærilegt mál sem rekið er gegn föður þar sem saksóknari fer fram á fjögurra ára fangelsi en dómur er ekki fallinn, hann kemur væntanlega fyrir jól, við vorum í réttinum í síðustu viku. Hann fékk þrjú ár í héraði og ákæruvaldið áfrýjaði þar sem það taldi refsinguna of væga. Dómur í því máli mun hafa fordæmisgildi í þessu máli,“ segir Haaheim.
Hann kveður aukinn fjölda sambærilegra mála afleiðingu hnattvæðingar. „Foreldrar eru nú mun oftar af ólíku þjóðerni og þess vegna hefur málum á borð við þetta fjölgað í Noregi, það er eðlileg afleiðing og norsk yfirvöld gera þá kröfu að börnum sé skilað aftur til Noregs án ástæðulausra tafa [þegar búseta í Noregi telst réttmæt lögum samkvæmt]. Þess vegna er það óskiljanlegt að Íslendingar hafi notað hálft annað ár í þetta mál,“ segir lögmaðurinn með áhersluþunga.
Að vera á flótta sé gríðarlegt álag fyrir ung börn og geti haft mjög skaðlegar afleiðingar. „Það er meginástæða þess að norsk yfirvöld reka þessi mál hratt og leggja þungar refsingar við,“ segir hann.
Faðirinn treysti því að Íslendingar hafi skilning á því hvílíkt álag á börnin fylgi málinu og sjálfur þykist Haaheim vita að hér á landi geti þegnarnir bakað sér refsiábyrgð með því að fela börn fyrir lögmætum forráðamanni.
„Móðirin getur átt yfir höfði sér allt að sex ára fangelsi hér í Noregi, það er refsiramminn fyrir barnsrán,“ segir Sjak R. Haaheim, lögmaður barnsföður Eddu Bjarkar Arnardóttur, að lokum.