Haraldur Bjarnason, framkvæmdastjóri Auðkennis, segir að svikamál á borð við það þegar bíræfinn þjófur notaðist við stolið ökuskírteini til að fá útgefin ný rafræn skilríki, sé einstakt tilvik. Því sé ekki ástæða til að grípa til sérstakra ráðstafana vegna þess.
Þetta segir Haraldur í tengslum við aðfinnslur Egils Morans, þjónustustjóra Hringdu, sem gagnrýndi að útgáfa skilríkjanna hvíldi á getu starfsfólks til að þekkja fólk af myndum í skilríkjum. Stundum 15-20 ára gömlum.
Þá sagði hann jafnframt að tiltölulega auðvelt væri að nálgast rafræn skilríki með því að falsa skilríki.
„Við treystum okkar skráningaraðilum mjög vel og þeir hafa staðið sig mjög vel. Svik á skráningarstöðum eru sjaldgæf. Auðvitað geta svik komið upp alls staðar en það hefur sýnt sig að þeir ferlar og það sem við höfum verið að gera, úttektir og annað, að þetta hefur gengið mjög vel,“ segir Haraldur.
En mætti segja að geta starfsfólks til að þekkja fólk af myndum í skilríki sé veikasti hlekkurinn í Auðkennis-keðjunni?
„Við erum búin að gefa út mjög mikið af rafrænum skilríkjum og svik þarna eru ekki með þannig tíðni að það bendi til þess að þetta sé veikur hlekkur,“ segir Haraldur.
Hann segir að fjöldaskilaboð á fólk í von um að það samþykki inngöngu á rafræn vefsvæði sé mun algengari leið til svika.
„Það hafa komið upp hin og þessi mál þar sem svik hafa verið með þessum leiðum. Þar sem fólk er gabbað til að nota skilríkin sín. Þess vegna höfum við verið að minna fólk á að nota skilríkin ekki á hlaupum og frekar að hætta við beitingu skilríkjanna ef fólk er ekki viss,“ segir Haraldur.
Hann segir að slík mál komi ekki endilega inn á borð hjá Auðkenni því vissulega hafi einstaklingar sem lent hafa í slíkum svikum beitt skilríkjunum.
„Þarna þurfum við að gera betur og hluti af því er fræðsla,“ segir Haraldur.
Þrjú bankaútibú og fjarskiptafélögin gefa út rafræn skilríki. Einnig er hægt að nálgast þau hjá Auðkenni og í sjálfsafgreiðslu. Ríflega 300 þúsund manns á Íslandi nota rafræn skilríki.