Flogið daglega til Vestmannaeyja

Ljósmynd/Vegagerðin

Vegagerðin hefur samið við Icelandair um að fljúga daglega til Vestmannaeyja meðan ferjan Herjólfur fer í slipp.

Flogið verður einu sinni á dag á tímabilinu 30. nóvember til 6. desember. Til flugsins verða notaðar Dash-8 flugvélar en þær vélar taka 37 farþega. Hægt er að bóka á vef Icelandair, að því er segir á vef Vegagerðarinnar.

Íbúar með lögheimili í Vestmannaeyjum eiga þess kost að nýta afláttarkerfi Loftbrúar og fá 40% afslátt af flugfargjöldum.

„Alvarleg bilun kom upp í skrúfubúnaði Herjólfs 22. nóvember þannig að önnur skrúfa skipsins var óvirk. Skipið sigldi á annarri skrúfunni um tíma enda var það talið öruggt. Hins vegar fór skipið hægar yfir en ella. Herjólfur III er kominn til landsins frá Færeyjum til að leysa skipið af á siglingaleiðinni milli lands og Eyja.

Herjólfur fer í slipp í Hafnarfirði 29. nóvember. Áætlað er að viðgerðin taki fimm til sjö daga. Gert er ráð fyrir að siglingar Herjólfs hefjist að nýju um miðja næstu viku,“ segir í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert