Gríðarlegur áhugi er fyrir Lundahlaupinu eða The Puffin Run-utanvegahlaupinu sem fram fer í Vestmannaeyjum í maímánuði.
Opnað var fyrir skráningu á sunnudaginn og nú þegar hafa selst 600 miðar í hlaupið að sögn Magnúsar Bragasonar, sem hefur umsjón með hlaupinu, en alls eru 1.000 miðar í boði.
„Ég er virkilega glaður enda gengur vel. Það eru þegar 600 miðar seldir í hlaupið. Um áramótin í fyrra var búið að selja 400 miða en núna stefnir í að það verði orðið uppselt í hlaupið á næstu dögum. Þetta sýnir okkur að áhuginn á utanvegahlaupum er gríðarlega mikill,“ segir Magnús við mbl.is en hlaupið, sem verður haldið þann 4. maí, verður það sjöunda í röðinni.
The Puffin Run er 20 kílómetra utanvegahlaup umhverfis Heimaey. Keppt er í þremur flokkum. Einstaklingar hlaupa 20 kílómetra, tveggja manna sveit karla, kvenna eða blandað hlaupa 2x10 kílómetra og fjögurra manna sveit karla, kvenna eða blandað hlaupa 4x5 kílómetra.
Skráning í hlaupið fer fram á netskraning.is