Hraði landrissins enn nokkur

Land rís um einn sentimetra á sólarhring við Svartsengi.
Land rís um einn sentimetra á sólarhring við Svartsengi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hægt hefur á landrisi við Svartsengi á undanförnum dögum en þó er hraði þess nokkur. Mælist um 1 sentimetra landris á sólarhring. 

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Veðurstofu Íslands. 

Þar segir enn fremur að jarðskjálftavirkni hafi áfram farið hægt minnkandi síðustu tvo sólarhringa.

Í gær mældust um 340 skjálftar nærri kvikuganginum og frá miðnætti í dag hafa um 150 skjálftar mælst.

Innflæði kviku undir Svartsengi

Aflögunargögn og niðurstöður líkanreikninga benda til að landrisið komi til vegna innflæðis undir Svartsengi, frekar en innflæðis við kvikuganginn.

Það þýðir að þensla við Svartsengi yfirgnæfi nú merkin við kvikuganginn, þó hægt dragi úr allri færslu. 

Innflæði í kvikuganginn einskorðast við svæðið austan við Sýlingarfell. Þótt áfram dragi úr aflögun og skjálftavirkni, eru enn þá taldar líkur á eldgosi og ef til þess kemur er líklegasti staðurinn austan Sýlingarfells.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert