Karl- og kvenkyns fangar sitja ekki við sama borð þegar kemur að hjálpartækjum ástarlífsins í fangelsum landsins. Þannig er karlföngum bannað að vera með kynlífshjálpartækið „múffu“ í fórum sínum í fangaklefa en konur hafa heimild til þess að vera með ílöng hjálpartæki í sínum klefa.
„Ég get staðfest að þarna hallar á karlana,“ segir Halldór Valur Pálsson, forstöðumaður fangelsanna að Sogni, Hólmsheiði og á Litla-Hrauni. Hann segir ákveðnar reglur um þann búnað sem kynin geta haft meðferðis í klefunum. Það á m.a. við um kynlífstækin. „Eigum við ekki að segja að karlaútgáfurnar séu minna klefavænar,“ segir Halldór og hlær við.
Kvenfangar eru vistaðir á Hólmsheiði þó þar séu einnig karlfangar. Eingöngu karlkyns fangar eru vistaðir á Litla-Hrauni.
Ómar Vignir Helgason varðstjóri á Litla-Hrauni segir að ástæðan fyrir múffuleysi á Hrauninu vera þá að hólf sem eru á múffum geti reynst föngum freistandi. Þó ekki í þeim skilningi sem virðist liggja í augum uppi heldur freisting til að nota gleðigjafann til þess að geyma fíkniefni.
„Það er hægt að geyma í þessu fíkniefni og annað,“ segir Ómar.
Hann segir að fangelsin ákveði þetta og þetta sé hluti af húsreglum. „Þú vilt ekki láta fagfólkið (fangaverði) leita í svona. Það yrði ekkert sérstaklega geðslegt,“ segir Ómar kíminn.
Hann segir fanga fá upplýsingar um það hvað þeir mega taka með sér í fangelsin og eins og gefur að skilja er ýmislegt sem ekki má hafa meðferðis. Þar á meðal eru nettengdar fartölvur.