Orðaforði ungmenna minnkar

Börn velja flest að gera eitthvað annað en að lesa …
Börn velja flest að gera eitthvað annað en að lesa í frítíma sínum. mbl.is/Eyþór

„Lestraráhugi er ekkert sérstaklega mikill á meðal ungs fólks í dag. Þetta er bara samkeppni um tíma og þau velja langflest að gera eitthvað annað í frítíma sínum en að lesa þannig að það er eitt en svo er líka það sem hefur verið bent oft og ítrekað á, meðal annars af Eiríki Rögnvaldssyni, að Ísland er mjög lítið málsamfélag og íslenskan er á svolitlu undanhaldi,“ segir Freyja Birgisdóttir, sviðsstjóri matssviðs hjá Menntamálastofnun, spurð um ástæðuna fyrir því að lesskilningi íslenskra ungmenna hefur hrakað síðastliðinn áratug.

Þurfum að vernda íslenskuna

Nefnir Freyja í því samhengi áhrif enskunnar í íslenska málumhverfinu. „Orðaforði íslenskra nemenda er að minnka einfaldlega af því að þau lesa minna og það er svo mikið af ensku í umhverfi þeirra. Þannig að ef við berum okkur saman við önnur lönd, þar sem finna má stærri málsamfélög, þá er þeirra móðurmál miklu meira í þeirra umhverfi en hjá okkar börnum, þetta er bara staðreynd. Þannig að við þurfum að vera tíu sinnum meðvitaðri að standa vörð um íslenskuna og ég held að það sé alveg hluti af þessu líka. Íslenskukunnátta er ekki eins djúp og hún var.“

Segir hún að verið sé að vinna að glænýju lesskilningsprófi fyrir nemendur í 3. og upp í 10. bekk.

„Það á að vera nokkurs konar leiðsagnarmat sem þýðir að markmið prófsins er að kortleggja stöðu nemenda frekar nákvæmlega, hverjir styrk- og veikleikarnir eru.“

Vonast er til að hægt verði að innleiða prófið í vor en stefnt er að því að gera það í skrefum.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka