Karl Gauti Hjaltason, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, segir að lögreglan vinni að rannsókn þeirra umfangsmiklu skemmda sem urðu á vatnslögninni til Vestmannaeyja á föstudagskvöldið þegar akkeri Hugins VE losnaði og fór í lögnina þegar báturinn sigldi inn til hafnar.
„Rannsóknin gengur út á að upplýsa um atvikið, hvað gerðist, af hverju og hvort um bilun hafi verið að ræða. Ef þetta er ekki bilun í tækjum sem hefur valdið þessu þá eru þetta hugsanleg mannleg mistök sem fellur þá undir óhapp eða gáleysi,“ segir Karl Gauti í samtali við mbl.is.
Karl Gauti segir að þetta sé fyrst og fremst tryggingarmál en hlutverk lögreglunnar sé að upplýsa hvað hafi gerst og þegar það liggi fyrir þá verði tekin ákvörðun hvort málið sé saknæmt eða ekki. Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra lýsti á mánudaginn yfir hættustigi í Vestmannaeyjum vegna skemmda á vatnslögninni.
„Nú er unnið að því að koma í veg fyrir að hér skapist neyðarástand ef að lögnin gefur sig. Það eru áætlanir um að reyna að styrkja lögnina eins og hún er. Það stendur ekki til að hreyfa við henni nema þá sem allra minnst fyrst hún þjónar okkur í dag. Hún er mjög illa farin og það borgar sig ekki að reyna að breyta henni,“ segir Karl Gauti.
Hann segir að það yrði afar slæmt ef lögnin gæfi sig. Í fyrsta lagi fyrir atvinnulífið og seinna meir fyrir íbúa Vestmannaeyja. Karl segir að ekki myndi skapast neyðarástand ef allt færi á versta veg.
„Fólk hefur vatn að drekka og við getum bjargað því en svo er spurning hvernig við förum að því að tryggja meiri notkun á vatni, hita húsin til heimilisnota og að halda atvinnulífinu gangandi.“
Karl segir að aðstoð hafi borist frá almannavörnum í dag og þá hafi Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra komið til að kynna sér aðstæður og funda með ráðamönnum bæjarins.
„Það kom hópur manna til Eyja í dag. Aðilar frá almannavörnum fóru í að greina stöðuna og veita okkur aðstoð. Þeir hafa reynslu og kunnáttu og þarna eru sérfræðingar hver á sínu sviði. Við erum mjög þakklát fyrir að fá þessa aðstoð,“ segir Karl Gauti.
Hann ítrekar að það sé ekkert neyðarástand í Vestmannaeyjum sem stendur og unnið sé að því á fullu að koma í veg fyrir að það skapist.