Sæðingar á vegum sauðfjársæðingastöðvanna á Suðurlandi og Vesturlandi verða niðurgreiddar á árinu 2023 ef sætt er með hrútum sem bera verndandi eða mögulega verndandi arfgerðir gegn riðuveiki samkvæmt útgefinni hrútaskrá 2023-24.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráði Íslands.
Þannig muni bændur sem skrá sæðingar í Fjárvís ekki síðar en 8. janúar 2024 fá styrk í samræmi við fjölda sæðinga á búin með hrútum sem bera verndandi eða mögulega verndandi arfgerðir gegn riðuveiki.
Styrkurinn verður föst fjárhæð á sæðingu og nemur 1.030 krónum ef um er að ræða hrúta sem bera verndandi arfgerð og 515 krónum á sæðingu ef um er að ræða hrúta sem bera mögulega verndandi arfgerð.
Sami styrkur verður greiddur hvort sem hrúturinn er arfhreinn eða arfblendinn og verður greitt í gegnum Afurð.
Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að dreifing, sala og innheimta fyrir sæði verði óbreytt frá fyrra fyrirkomulagi.