Sorprennur þóttu á sínum tíma gífurlega flottar og þær stóðu fyrir nútíma þægindi og vísindalega skilvirkni. Í Alþýðublaðinu 11. maí 1947 er talað um þessa nýjung, þar sem aðeins þarf að „opna smá loku á veggnum til að koma frá sér ruslinu“ sem falli síðan ofan í þró í kjallaranum.
Í Morgunblaðinu 30. janúar 1954 er vikið að flottri nýbyggingu í Vesturbæ þar sem „frá hverju stigahúsi verður sorprenna af fullkomnustu gerð“.
„Ég hef heyrt það að sorprennur hafi fyrst verið settar í fjölbýlishús hérlendis þegar þær voru settar í Hringbrautarblokkirnar, þar sem Þórbergur Þórðarson rithöfundur bjó,“ segir Pétur H. Ármannsson arkitekt.
„Þær voru byggðar á árum seinni heimsstyrjaldarinnar og þetta þóttu mikil þægindi og nýtískulegt.“ Pétur segist vita til þess að í mörgum fjölbýlishúsum í dag sé búið að loka þessum sorprennum, enda þjóni þær varla tilgangi sínum lengur á tímum flokkunar sorps. „Það er ein lúga á neðstu hæðinni hjá mér þar sem eingöngu er hægt að setja óflokkað sorp, en öllum hinum hefur verið lokað,“ segir hann.
„Í þessu birtist gamla viðhorfið að það sé bara hægt að setja allt rusl inn í eina lúgu og það bara hverfi,“ segir Gunnar Dofri Ólafsson samskiptastjóri Sorpu.
„Það er veruleiki sem við hérna á Íslandi höfum verið að fikra okkur frá í 30-40 ár. Við tókum mjög stórt stökk á höfuðborgarsvæðinu í ár, þegar við fórum að flokka matarleifar sérstaklega. Mér skilst að slökkviliðinu sé ekki vel við þessar rennur, því þetta sé mjög skilvirk leið fyrir eld að breiðast út milli hæða. Mig grunar að mínir góðu vinir í slökkviliðinu verði mjög ánægðir ef það verður fyllt upp í þessar sorprennur sem víðast.“
Nánar er fjallað um sorprennur í Morgunblaðinu í dag.