„Þá voru góð ráð dýr“

Borgarstjóri sá um að fella tréð, ásamt Sævari Hreiðarssyni, skógarverði …
Borgarstjóri sá um að fella tréð, ásamt Sævari Hreiðarssyni, skógarverði í Heiðmörk. mbl.is/Hólmfríður

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri felldi í dag ríflega 12 metra hátt sitkagrenitré, svokallað Óslóartré, sem verður reist á Austurvelli og lýst upp með jólaljósum á sunnudaginn, eins og hefð er fyrir.

Norski og færeyski sendiherrarnir fylgdust með borgarstjóranum ásamt fulltrúum borgarinnar og Skógræktarfélags Reykjavíkur. Mátti heyra viðstadda ýmist spreyta sig á íslensku, norsku, sænsku og ensku.

„Já, nú er ég búinn að gera þetta í þónokkuð mörg ár,“ segir Dagur þegar blaðamaður ræddi við hann að loknu skógarhöggi. Ólíkt blaðamanni var borgarstjórinn klæddur í viðeigandi klæðnað og skartaði skærappelsínugulum galla, hjálmi og hlífðargleraugum.

„Þessi hefð er tiltölulega ný þó hún sé líklega um 10 ára gömul. Miklu lengri hefð var sú að fá sent jólatré frá Ósló, Óslóartréð, eins og við köllum það enn þá, sem að prýtt hefur Austurvöll í um 70 ár.“

Auður Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur, Hanna í Horni, sendikvinna Færeyja …
Auður Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur, Hanna í Horni, sendikvinna Færeyja í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Cecilie Willoch, sendiherra Noregs á Íslandi. mbl.is/Hólmfríður

Augljóst að það væri ekki hægt að senda tré

Dagur rifjar upp að þessi hefð, að fella Óslóartré í Heiðmörk, megi rekja til storms sem gekk yfir í byrjun desember 2014 og varð til þess að Óslóartréð það árið brotnaði áður en hægt var að tendra ljósin á því.

Tréð hafði verið flutt frá Noregi en ljóst var að ekki væri hægt að flytja annað tré í tæka tíð.

„Þannig þá voru góð ráð dýr, það var alveg augljóst að það næðist ekki að senda nýtt tré frá Ósló og borgarstjórinn í Ósló hafði aðeins verið að velta því fyrir sér hvort að það væri réttlætanlegt að senda tré milli landa, sérstaklega ef það þyrfti ekki.

Þetta varð til þess að ég dreif mig upp í Heiðmörk með aðstoð Skógræktarfélagsins, og við fundum tré sem að við söguðum og sómdi sér gríðarlega vel á Austurvelli.“

Hringir taldir.
Hringir taldir. mbl.is/Hólmfríður

Halda í nafnið upp á tenginguna

Borgarstjóri segir hið augljósa hafa blasað við.

„Núna þegar að Heiðmörkin er orðin um 70 ára gamall skógur að þá er fjöldinn allur af mjög fallegum grenitrjám sem eru alls ekki síðra Óslóartré heldur en þau sem koma frá Noregi.

En við vildum halda í nafnið upp á tenginguna og líka til þess að þakka fyrir það að það voru m.a. Norðmenn búsettir hér sem voru mjög öflugir í að kenna gróðursetningu og tóku þátt í að planta hérna um alla Heiðmörk þó það hafi verið sjálfboðaliðar úr röðum Íslendinga og Reykvíkinga sem að unnu flest handtökin.“

Borgarstjórinn eftir að hafa fellt tréð.
Borgarstjórinn eftir að hafa fellt tréð. mbl.is/Hólmfríður
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka