Þakkar skjót viðbrögð er rútan valt

Bjarnheiður Hallsdóttir þakkar skjót viðbrögð.
Bjarnheiður Hallsdóttir þakkar skjót viðbrögð. mbl.is/Hákon

Bjarnheiður Hallsdóttir, framkvæmdastjóri Katla Travel, þakkar viðbragðsaðilum fyrir faglega, fumlausa og örugga vinnu á föstudag er hópur á vegum ferðaþjónustufyrirtækisins lenti í slysi á Holtavörðuheiði. 

Hópurinn sem lenti í slysinu er frá Þýskalandi en allt starfsfólk frá Kötlu Travel var í útlöndum er slysið varð og þótti Bjarnheiði það heldur óheppilegt. 

„Sem betur fer er gott símasamband á milli landa og því gátum við gert flest það sem gera þurfti í gegnum síma. Það var lán í óláni og auðvitað fyrir mestu að enginn slasaðist alvarlega í slysinu, þó einn gesturinn dvelji enn á sjúkrahúsi. Það var hins vegar algjörlega frábært að upplifa hvað við búum við frábært kerfi þegar slys henda,“ skrifar Bjarnheiður í færslu á Facebook.

Alls ekki sjálfsagt

Katla Travel hefur farið með óteljandi hópa jafn óteljandi hringi í kringum Ísland síðan árið 1997 og er þetta í fyrsta skipti sem nokkuð svona gerist.

„Hópslysaáætlun var virkjuð samstundis, þyrla Landhelgisgæslunnar var stödd skammt frá og lenti á heiðinni skömmu eftir slysið og tók vettvanginn út. Lögregla og sjúkrabílar voru fljót á vettvang og fluttu tvo gesti á sjúkrahúsið á Akranesi. Björgunarsveitir ferjuðu gestina á jeppum niður í Staðarskála, þar sem þeir nutu aðhlynningar frá sjálfboðaliðum Rauða Krossins,“ skrifar Bjarnheiður. 

Frá aðgerðum viðbragðsaðila á Holtavörðuheiði á föstudag.
Frá aðgerðum viðbragðsaðila á Holtavörðuheiði á föstudag.

Hópurinn hafi þaðan verið ferjaður til Hafnarfjarðar þar sem fulltrúar frá Rauða krossinum og þýska sendiráðinu í Reykjavík hitti þau. 

„Að sögn leiðsögumannsins okkar voru öll vinnubrögð og viðmót viðbragðsaðila til mikillar fyrirmyndar, allt faglegt, fumlaust, öruggt og vingjarnlegt. Fyrir það viljum við af öllu hjarta þakka - þetta er alls ekki sjálfsagt,“ skrifar Bjarnheiður að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert