Atvinnulífið í Grindavík er hægt og rólega að fara af stað. Unnið er að því að laga lagnir og fylla í sprungur, sem einhverjar eru þó svo djúpar að ferja þarf fleiri tonn af möl og sandi í þær til að þær fyllist.
Fjórir ráðherrar ríkisstjórnarinnar lögðu leið sína um bæinn í gær í fylgd björgunarsveitarmanna. Ráðherrarnir voru sammála um mikilvægi þess að fara á staðinn til að upplifa aðstæður í Grindavík og öðlast þannig betri skilning á stöðunni.
Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar, fylgdi ráðherrunum um bæinn. Hann segir dagana skemmtilegri eftir að aðgangur íbúa og fyrirtækja að bænum var rýmkaður, þrátt fyrir að hlutverk björgunarsveitarinnar á staðnum hafi ekki breyst mikið samhliða því. Það sé ávallt verið að endurmeta stöðuna, kortleggja sprungur, fylgjast með breytingum og fara yfir bæinn. Björgunarsveitarmenn munu áfram taka þátt í því, enda vel kunnugir staðháttum, segir hann.