Bambi er dauður

Jóhanna segir geitur ekki verða mikið eldri en Bambi, sem …
Jóhanna segir geitur ekki verða mikið eldri en Bambi, sem lifði í tólf og hálfan vetur. Ljósmynd/Jóhanna Bergmann Þorvaldsdóttir

Geitin Bambi, sem brá meðal annars fyrir í hinum vinsælu sjónvarpsþáttum Game of Thrones, er dauð.

Bamba var vart hugað líf eftir að hann fæddist, en að sögn eiganda hans, Jóhönnu Bergmann Þorvaldsdóttur, bónda á Háafelli í Hvítársíðu, braggaðist Bambi vel og lifði í tólf og hálfan vetur, sem er með því elsta sem geitur verða. 

Jóhanna segir Bamba hafa vart verið hugað líf fyrstu daga …
Jóhanna segir Bamba hafa vart verið hugað líf fyrstu daga ævi sinnar, en hann var afar lítill og veikburða þegar að hann fæddist. Ljósmynd/Jóhanna Bergmann Þorvaldsdóttir

Annar tveggja pasturslítilla hafrastubba

Í færslu sem Jóhanna birti á Facebook í dag greinir hún frá ævi Bamba.

„Þann 5. júní 2012 bar hún Vaffla litla, veturgömul geir, tveimur pasturslitlum hafrastubbum. Hr. Pönnukaka var heldur sprækari og fylgdi mömmu sinni en Bambi litli var ósköp lítill og linur svo hann flutti inn til tvífætlinga sem allir lögðust á eitt með að reyna halda í honum lífi,“ segir Jóhanna í færslunni. 

Heimilisfólkið á Háafelli hlúði vel að Bamba sem braggaðist vel …
Heimilisfólkið á Háafelli hlúði vel að Bamba sem braggaðist vel eftir því sem á leið. Ljósmynd/Jóhanna Bergmann Þorvaldsdóttir

Jóhanna segir í samtali við mbl.is að heimilisfólkið hafi sinnt Bamba af mikilli alúð og meðal annars gefið honum lýsi og eplaedik fyrstu dagana til þess að halda í honum lífi.

Sem betur fer hafi hann tekið við sér og notið ástar og athygli fjölskyldunnar það sem eftir var. 

Ósamvinnuþýð sjónvarpsstjarna

Að sögn Jóhönnu voru þau fjölmörg ævintýrin sem á daga Bamba drifu, en hann fór með hlutverk í sjónvarpsþáttunum Game of Thrones sem voru meðal annars teknir upp á Íslandi.

Í atriðinu sem Bamba bregður fyrir flýgur dreki yfir geitahjörð og spýr eldi í átt að þeim, en sjá má Bamba á átjándu sekúndu myndskeiðsins hér fyrir neðan. 

„Hann var svona „celeb“, blessaður,“ segir Jóhanna og bætir við að Bambi hafi notið mikillar athygli í kjölfar þáttanna.

„Hann var ekki mjög samvinnuþýður við upptökur en hann var þarna í hjörðinni og var mikið myndaður.“

Á myndinni er Bambi á leið í tökur, en honum …
Á myndinni er Bambi á leið í tökur, en honum má sjá bregða fyrir í sjónvarpsþáttunum Game of Thrones. Ljósmynd/Jóhanna Bergmann Þorvaldsdóttir

Segir tíma Bamba hafa verið kominn

Jóhanna segir síðasta dag Bamba hafa verið tilfinningaþrunginn, en hann hefur skipað stóran sess innan fjölskyldunnar undanfarin ár.

„Bambi náði tólf og hálfs árs aldri sem er með því elsta sem geit lifir. En í haust var hann orðinn ansi fótafúinn og tennur orðnar lélegar til jórturs.

Daginn sem hann fékk hjálp til að kveðja lagði hann hausinn sinn í fangið á mér og kúrði, þá fannst mér hann vita að þetta væri kveðjustund og hann væri sáttur,“ segir Jóhanna í færslu sinni á Facebook. 

Jóhanna segir tíma Bamba hafa verið kominn.
Jóhanna segir tíma Bamba hafa verið kominn. Ljósmynd/Jóhanna Bergmann Þorvaldsdóttir

Þakkar fyrir góðar stundir

Þó kveðjustundin hafi verið Jóhönnu erfið segir hún hana hluta af lífi bænda og bætir við að tími Bamba hafi verið kominn. 

„Það er ekki dýravelferð að láta dýrin lifa það lengi að þau séu kvalin. Hans tími var algjörlega kominn, það var ekkert um það að ræða,“ segir Jóhanna. 

„Þegar maður er bóndi verður maður að búa við þetta, að dýrin verða að fara einhvern tímann. Þetta er náttúrulega erfiðast með gömlu vinina, það er bara þannig. En lífið er bara svona, það gefur og tekur, þá bara þakkar maður fyrir góðar stundir.“

Lítill Bambi virðir Morgunblaðið fyrir sér.
Lítill Bambi virðir Morgunblaðið fyrir sér. Ljósmynd/Jóhanna Bergmann Þorvaldsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert