Edda í fangelsi: „Drengirnir í öruggum höndum“

Edda Björk Arnardóttir
Edda Björk Arnardóttir Ljósmynd/Aðsend

Edda Björk Arnardóttir segir að hún hafi verið stödd í heimsókn í húsi sem er í um klukkustundar fjarlægð frá Reykjavík þegar lögreglu bara að garði og hún handtekin.

Hún furðar sig á framferði lögregluyfirvalda sem hafi fundið sig knúna til að lýsa eftir henni eftir framsalsbeiðni frá Noregi. Framsalsbeiðnin er byggð á grundvelli réttarhalda sem áttu að fara fram í ágúst síðastlinum. Tólf dögum fyrir þau var hins vegar send út handtökuskipun á hendur Eddu sem hefur verið í skaki við lögregluyfirvöld vegna málsins gegn henni og sýslumann vegna aðfarar um að flytja drengina til Noregs.

Þegar handtökuskipunin var gefin út segir Edda að hún hafi þegar framvísað farmiða og sent yfirlýsingu í gegnum lögmann um að hún hygðist vera viðstödd réttarhöldin sem sett voru 12 dögum síðar að sögn Eddu.

Þá furðar hún sig jafnframt á framferði barnaverndaryfirvalda sem hafi ekki lagt sig fram um að fara eftir vilja drengjanna líkt og kveðið sé á um í barnaverndarsáttmála. Þvert á móti hafi fulltrúi barnaverndar komið að húsinu sem hún var stödd í þegar hún var handtekin um klukkustund síðar „til að leita að barni á vergangi.“

Norsk yfirvöld hafa fram á sunnudag að sækja Eddu

„Það er enginn á vergangi. Drengirnir eru í öruggum höndum,“ segir Edda. Hún situr nú á Hólmsheiði og þegar blaðamaður náði tali af henni hafði hún beðið eftir því að síminn losnaði um nokkra hríð.

Gæsluvarðhaldið yfir Eddu er fram á sunnudag og þurfa norsk yfirvöld að sækja hana í fangelsið fyrir þann tíma. Búið er að áfrýja gæsluvarðhalsúrskurðinum til Landsréttar. Í Noregi bíða hennar réttarhöld sökum þess að hún nam þrjú barna hennar og íslensks föður sem búsettur er í Noregi til Íslands.

Spurð um það hvort farið verði með drengina þrjá til Noregs ef yfirvöld hafa upp á þeim þá segir hún aðra aðför þurfa til. Fyrri aðför stóð í um þrjár klukkustundir en var frestað eftir að tveir drengjanna sem voru heima við vildu ekki fara að sögn Eddu. Sú aðför hefur verið kærð. Í skýrslu sýslumanns um aðförina er hvorki vikið að því hvort drengirnir hafi viljað fara til Noregs né hvort þeir hafi viljað vera á Íslandi.

Framkvæmd aðfarargerðar þótti umdeild.
Framkvæmd aðfarargerðar þótti umdeild. Ljósmynd/Aðsend

Veit ekki hvar drengirnir eru 

„Á meðan máttu ekki fara í aðra aðför. En fulltrúi sýslumanns telur sig ekki þurfa að sæta þessum lögum. Það er orðið eitthvað takmark að koma þessum drengjum úr landi. Eins og þeir séu fyrir einhverjum hérna. Kannski nenna þeir þessu ekki lengur og vilja málið bara frá sér,“ segir Edda.

„Ég veit ekki hvar drengirnir eru, en ég veit bara að það væsir ekki um þá,“ segir Edda.

Hún segir að handtakan í vikunni hafi ekki komið á óvart. „Við ætluðum að láta á það reyna hvort að íslensk stjórnvöld ætluðu virkilega að handtaka mig og framselja mig til annars lands. En handtakan kom svo ekki á óvart því lögregla hafði fyrir því að lýsa eftir mér út um allt með mynd. Svo þakkaði hún fyrir veitta aðstoð. Líkt og þetta væri persónulegt. Ég er bara húsmóðir í Grafarvogi. Það hættulegasta sem ég geng með á mér er Pepsi Max í dós,“ segir Edda.

Vildi ekki segja hvar hún var stödd

Hún segir að það hafi verið meðvituð ákvörðun að láta drengina ekki vera með henni ef lögreglan myndi banka upp á.

„Við fengum framsalsdóminn úr Landsrétti rúmlega 4 á föstudegi. Vitandi vits um að ég get ekki samið við saksóknara á þeim tíma um að ég yrði ekki framseld fyrr en komi til réttarhalda. Enda biðu þeir ekki boðanna og lögregla kom heim til mín strax á föstudagskvöldinu. Þá var ég að vísu ekki felum heldur í matarboði. En við höfðum fengið þær upplýsingar að niðurstaða Landsréttar um framsalið myndi vera birt okkur á miðvikudegi eða fimmtudegi en þessar upplýsingar komu seint á föstudegi. Þetta hljómar eins og ofsóknaræði en við veltum því strax fyrir okkur hvort þetta væri ekki tilviljun og þeir myndu koma um leið til að handtaka mig áður en ég gæti talað við saksóknara. Sem og þeir gerðu þó ég hafi ekki verið heima. Þeir hringdu í mig til að spyrja hvar ég væri. Ég sagði þeim að ég myndi ekki segja þeim það því ég vildi fá að tala við saksóknara á mánudaginn,“ segir Edda.

Daginn eftir kom lögregla aftur með leitarheimild. Þá voru strákarnir heima en lögregla var ekki að leita að þeim í því tilviki. Þeirra forgangur snéri að Eddu og framsalinu. 

Sýslumaður fer með aðfarargerð um að flytja drengina til Noregs. …
Sýslumaður fer með aðfarargerð um að flytja drengina til Noregs. Lögregla sér um að framfylgja framsalsbeiðni Norðamanna. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Hefur áður verið dæmd í Noregi 

Edda hefur áður fengið sex mánaða skilorðsbundinn dóm vegna málsins í Noregi. Á það rætur sínar að rekja til þess að norskur dómstóll hafði veitt föðurnum forræði á þeim forsendum að Edda vildi flytja með drengina úr landi til Íslands. Faðirinn vildi hins vegar vera í Noregi. Úrskurður dómstólsins var sá að faðirinn fór með forræði en drengirnir myndu fara í fríum til Íslands. Edda var hins vegar of lengi með drengina í fríi eina páskana og var ákærð fyrir tálmun og fékk því sex mánaða skilorðsbundinn dóm.

Í ljósi þessa fyrri dóms má ætla að nokkuð þungur dómur bíði hennar í Noregi en viðurlögin fyrir að nema drengina á brott eru allt að sex ára fangelsi. Hefur lögmaður föður þeirra sagt að líkur séu á því að dómurinn verði þungur.

Tilbúin að taka þeim dómi sem bíður 

„Ég er alveg tilbúin að taka þeim dómi sem mín bíður. Ég fór í þetta vitandi vits. Ég gerði þetta hins vegar fyrir börnin mín. Ég hefði aldrei verið sátt við sjálfa mig ef ég hefði ekki gert þetta. Ég hefði aldrei getað verið í sátt við lífið. Börnunum leið ekki vel í Noregi og því gerði ég það sem ég gerði. Ég verð svo bara að taka afleiðingunum af því. Ef ég veit af börnunum í góðum málum heima á Íslandi á meðan þá finnst mér það bara fínt. Ég á góða mömmu og góða fjölskyldu og tek því bara sem koma skal. Ég væri ekki með hreina samvisku gagnvart börnunum mínum ef ég hefði ekki gert neitt,“ segir Edda.

Hún heldur því fullum fetum fram að drengirnir vilji vera á Íslandi. Þeir eru 10 ára og 13 ára tvíburar. Að auki eiga þeir tvær eldri alsystur sem Edda hefur fullt forræði yfir. Sálfræðiskýrsla dómskvadds matsmanns í aðfararmálinu um að flytja drengina til Noregs styður frásögn Eddu í þessa veru. Þessi skýrsla var gerð fyrir 13 mánuðum síðan. Þrátt fyrir hana var fallist á aðför um að flytja drengina til Noregs í ljósi forræðis föður drengjanna.  

Taka skal fram að faðir drengjanna hefur hafnað viðtali vegna málsins hingað til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert