Fær heimild til að rannsaka og afrita síma vitnis

Í niðurstöðu héraðsdóms kemur fram að af gögnum málsins að …
Í niðurstöðu héraðsdóms kemur fram að af gögnum málsins að dæma geti brotin varðað allt að sextán ára fangelsisrefsingu og að málið sé rannsakað sem ætlað brot nokkurra einstaklinga gegn einum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsréttur staðfesti á þriðjudag úrskurð héraðsdóms þar sem lögreglu var heimilað að rannsaka og afrita rafrænt efnisinnihald haldlagðs farsíma í eigu konu, ætluðu vitni í sakamáli.

Héraðsdómur úrskurðaði 22. nóvember að lögreglu væri heimil afritun á gögnum símans, sem og þau gögn hans sem kunna að vera geymd á skýi eða öðrum geymslum á veraldarvefnum.

Lögmaður hugsanlegs vitnis krafðist þess að úrskurðurinn yrði felldur úr gildi en að til vara að lögreglu væri aðeins heimilt að rannsaka og afrita innihald farsímans til rannsóknar á sakamálinu. Landsréttur varð við hinu síðarnefnda og úrskurðaði að rannsóknargerðin taki aðeins til rannsóknar á viðkomandi sakamáli.

Allt að 16 ára fangelsi

Forsaga málsins er sú að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur til rannsóknar kynferðisbrot, stórfelda líkamsárás, frelsissviptingu og rán sem á að hafa átt sér stað 14. ágúst í Kópavogi.

Í niðurstöðu héraðsdóms kemur fram að af gögnum málsins að dæma geti brotin varðað allt að sextán ára fangelsisrefsingu og að málið sé rannsakað sem ætlað brot nokkurra einstaklinga gegn einum.

Einn sakborningana í málinu á að hafa verið sóttur af konunni og eru þau talin vera kærustupar.

Tekin hafi verið skýrsla af konunni 10. nóvember og hafi hún neitað að tjá sig. Farsími hennar hafi verið haldlagður en hún hafi ekki heimilað lögreglu að afrita hann. Lögregla telji nauðsynlegt að afrita símann í því skyni að upplýsa málið og komast að hlut hvers og eins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert