Flytja á Eddu úr landi í nótt

Edda Björk verður flutt úr landi í nótt, segir lögmaður …
Edda Björk verður flutt úr landi í nótt, segir lögmaður hennar. mbl.is/samsett mynd

Edda Björk Arnardóttir, sem handtekin var á þriðjudag og úrskurðuð í gæsluvarðhald, verður flutt úr landi og til Noregs í nótt.

Lögreglan greindi Eddu frá þessu nú í kvöld. Lögmaður Eddu, Jóhannes Karl Sveinsson, furðar sig á þessu framferði lögreglunnar í samtali við mbl.is.

Segir hann þau hafa átt von á úrskurði Landsréttar á morgun, föstudag, um gildi gæsluvarðhaldsúrskurðar héraðsdóms.

„Edda var úrskurðuð í gæsluvarðhald í fyrradag, sem var búið að kæra til Landsréttar og við áttum von á úrskurði um það á morgun,“ segir Jóhannes.

„En nú er henni tilkynnt í kvöld að hún verði sótt í nótt og farið með hana til Noregs, áður en hún fær úrlausn mála í Landsrétti.“

Myrkraverkin verði geymd til morguns

Hann segir stoðdeild ríkislögreglustjóra standa að þessu.

„Og við erum búin að koma erindi til héraðsdómstóls og ríkissaksóknara í kvöld, um að þessi myrkraverk verði nú geymd til morguns alla vega.“

Aðspurður kveðst hann ekki vita á hverju þessi ákvörðun sé reist.

„Við vitum ekki á hverju þetta er byggt. Þetta kemur ekki frá ríkissaksóknara, sem fer með forræði þessara mála, og ekki frá dómstólnum.“

Engin heimild veitt frá dómsvaldinu

Dómsvaldið hafi þannig ekki veitt heimild til að færa Eddu úr gæsluvarðhaldi eða að komið verði í veg fyrir að hún fái úrlausn í Landsrétti.

„Landsréttur mun ekki kveða upp neinn úrskurð um þetta ef hún er bara farin og ekki lengur í gæsluvarðhaldinu. Þetta er því dálítið gróft brot á því að hún fái endurskoðun.“

Jóhannes segir þetta sérstakt.

„Mér hefði fundist tilefni til að bíða, alla vega þar til hún fengi að klára sína dómstólameðferð hérna, í ljósi þess að það er ekki einu sinni búið að ákveða hvenær hún á að mæta fyrir dóm í Noregi. Það er ekki eins og það liggi þannig á.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert