Hægir umtalsvert á hagvexti

Hagvöxtur hefur dregist saman síðustu mánuði.
Hagvöxtur hefur dregist saman síðustu mánuði. mbl.is/Hari

Hægt hefur umtalsvert á hagvexti á milli ársfjórðunga hér á landi.

Fyrstu þrjá mánuði ársins var hann 7%, næstu þrjá var hann komin niður í 4,7% og síðasta ársfjórðung var hann aðeins 1,1% miðað við sama tímabil í fyrra, samkvæmt niðurstöðum þjóðhagsreikninga, að því er kemur fram í tilkynningu Hagstofu Íslands.

Fyrstu níu mánuði ársins mælist verg landsframleiðsla (VFL) að raunvirði þó um 4,2% meiri en á sama tíma í fyrra.

Af undirliðum þjóðarútgjalda er áætlað að einkaneysla hafi dregist saman að raunvirði um 1,7% og fjármunamyndun um 4,3%. Aftur á móti er talið að samneysla hafi aukist um 2,3% að raunvirði samanborið við þriðja ársfjórðung í fyrra.

Jákvætt framlag utanríkisviðskipta

Á þriðja ársfjórðungi er áætlað að framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar hafi mælst jákvætt um 2,2% og að afgangur af vöru- og þjónustujöfnuði hafi numið um 5,2% af VLF samanborið við 4,8% á sama ársfjórðungi í fyrra.

Niðurstöður þjóðhagsreikninga gefa til kynna að árstíðaleiðrétt landsframleiðsla hafi dregist saman um 3,8% að raunvirði á milli annars og þriðja ársfjórðungs þessa árs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert