Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, segir að níu mánuðir séu liðnir frá því Hveragerðisbæ var tilkynnt um fyrirhuguð rannsóknarleyfi vegna mögulegrar virkjunar í Ölfusdal ofan Hveragerðis.
Í bókun bæjarstjórnar Hveragerðis vegna málsins kveðst bæjarstjórnin undrast yfirlýsingar í fjölmiðlum um virkjunaráform í Ölfusdal og samstarf Orkuveitu, sveitarfélagsins Ölfuss og Títans án nokkurs samráðs eða aðkomu Hveragerðisbæjar að málinu.
„Það eru níu mánuðir liðnir frá því við tilkynntum Hveragerðisbæ um þessar fyrirætlun okkar. Hvað varðar efnislegt innihald bókunarinnar þá get ég tekið undir þær áhyggjur og deili þeim með Hvergerðingum. Það er mjög mikilvægt að þarna njóti bæði náttúran og hagsmunir íbúa algjörs forgangs,“ segir Elliði við mbl.is.
Elliði segir að Hveragerðisbær hafi haft níu mánuði til að falast eftir samstarfi við Ölfus eins og Orkuveitan gerði en hann segir að Orkuveitan hafi fengið sama afrit og Hvergerðingar.
Bæjarráð Hveragerðis hafi fjallað um málið og bæjarstjórnin sömuleiðis fyrir tæpum níu mánuðum síðan og að bæjarstjórnir beggja megin hafi verið upplýstar um að þetta stæði til.
„Það er ekki eins og þetta hafi ekki borið brátt að. Í níu mánuði hafa vinir okkar í Hveragerði haft fullt svigrúm til að óska eftir samráði eða fundi með okkur um þetta. Það breytir því ekkert að sá tími er ekki liðinn. Ef þeir vilja fleiri mánuði til þess þá er það alveg sjálfsagt. Minn ótti í þessu máli er kannski ekki sá að málið vinnist of hratt. Þetta yrði þá fyrsta orkumálið á Íslandi sem hefði fengið slíkan flýti,“ segir Elliði.
Hann segir mjög mikilvægt að halda því til haga að ekki sé verið að boða virkjun heldur boða rannsóknarleyfi og það sé ekkert mannvirki reist á þeim forsendum.
„Ef Hvergerðingarnir vilja vinna með okkur þá skal alla vega ekki standa á mér en ég get ekki lofað fyrir hönd annarra. En það er nú einu sinni þannig að þegar svona vandasöm mál koma til umfjöllunar þá verður oft ekkert mikill þráður í umræðunni. Hún fer víða en ég er búinn að vera nógu lengi í þessu til að vita það að þessi umræða á eftir að fá meiri kjölfestu. Rykið á eftir að setjast og fólk sér að það er engin ógn í þessu og allir eru boðnir til samstarfs hvað þetta varðar,“ segir Elliði.
Hann segir að boltinn sé nú hjá Hvergerðingum. Búið sé að senda erindi á Hveragerðisbæ sem hafi samþykkt að hafa samband við Ölfus.
„Það strandar ekki á neinum vilja eða upplýsingagjöf hjá okkur. Við eigum í margs konar samstarfi við Hveragerði og langt umfram önnur sveitarfélög. Við eigum til dæmis 14% í grunnskólanum í Hveragerði og 9% í leikskólanum þannig að það er langbest að fólk setjist niður og leysi málin saman frekar en að ætla að fara í eitthvað stríð.“