Hangikjötið enn á hellunni

Vilhjálmur Jóhann Lárusson, eigandi Sjómannsstofunnar Vör í Grindavík
Vilhjálmur Jóhann Lárusson, eigandi Sjómannsstofunnar Vör í Grindavík mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vilhjálmur Jóhann Lárusson, eigandi Sjómannsstofunnar Varar í Grindavík, opnaði dyrnar á ný í dag fyrir gestum veitingastaðarins. 

Sjómannsstofan Vör er þar með fyrsti veitingarstaðurinn í bænum til að opna á ný eftir að bærinn var rýmdur að kvöldi föstudags, þann 10. nóvember.

Ruku út í miðjum jólahlaðborðsundirbúningi

Vilhjálmur segir engar skemmdir hafa orðið á veitingastaðnum, en þegar bærinn var rýmdur voru starfsmenn í óðaönn við að undirbúa jólahlaðborð sem átti að vera að kvöldi laugardags og var hangikjötið því enn í pottinum þegar starfsfólkið rauk út. 

Það kom þó ekki að sök því þegar Vilhjálmur fór aftur inn í eldhúsið á mánudeginum, eftir rýminguna, þá var hangikjötið enn á hellunni, „ekki búið að færast neitt,“ segir hann. 

Þegar bærinn var rýmdur voru starfsmenn í óðaönn við að …
Þegar bærinn var rýmdur voru starfsmenn í óðaönn við að undirbúa jólahlaðborð sem átti að vera að kvöldi laugardags og var hangikjötið því enn í pottinum þegar starfsfólkið rauk út. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þreyttir á samlokum eftir þrjár vikur 

„Menn eru þakklátir fyrir að fá góðan mat enda þreyttir á samlokum eftir þrjár vikur,“ segir Vilhjálmur sem tók á móti um 130-150 manns á veitingastaðnum í hádeginu í dag, þar sem boðið var upp á heitan „mömmumat.“

Aðspurður segist hann hafa séð mikið af nýjum andlitum í dag, en jafnframt mikið af heimamönnum. Þá segir hann að hljóðið í mannskapnum hafi verið gott og að menn séu bjartsýnir á framhaldið. 

Vilhjálmur segist ekki hafa þurft að hafa mikið fyrir því að fá að opna aftur. Hann hafi ákveðið að kanna hvort hann fengi leyfi, þegar hann sá að önnur fyrirtæki væru búin að opna, og fengið grænt ljós um leið.

Vilhjálmur áætlar að um 130-150 manns hafi snætt hádegismat á …
Vilhjálmur áætlar að um 130-150 manns hafi snætt hádegismat á staðnum í dag. Eggert Johannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert