Hefði hæglega getað farið verr

Í skýrslu lögreglu kemur fram að maðurinn hafi verið verulega …
Í skýrslu lögreglu kemur fram að maðurinn hafi verið verulega ölvaður umrætt sinn. Þó það leysi hann ekki undan refsiábyrgð skýrir það heiftarleg viðbrögð hans að mati dómsins. Ljósmynd/Colourbox

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann á sextugsaldri í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir stórfellda líkamsárás. Maðurinn játaði brot sitt skýlaust fyrir dómi. 

Hann var enn fremur dæmdur til að greiða manninum 250.000 kr. í miskabætur. 

Héraðssaksóknari ákærði manninn í ágúst fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 4. ágúst 2022, fyrir utan bar í Austurstræti í Reykjavík, kastað eða slegið glerglasi í höfuð annars manns. Maðurinn sem fékk glasið í sig hlaut 15 mm lóðrétta djúpa rispu á hægri augabrún og rispu á hægri kinn.

Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem féll 14. nóvember en var birtur í dag, að við ákvörðun refsingar hafi verið til þess litið að ákærði hefur ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað. Þá er litið til greiðrar játningar hans á rannsóknarstigi og hér fyrir dómi. 

Ölvun leysi manninn ekki undan refsiábyrgð

Í skýrslu lögreglu kemur fram að maðurinn hafi verið verulega ölvaður umrætt sinn. „Þó það leysi hann ekki undan refsiábyrgð, sbr. 17. gr. almennra hegningarlaga, skýrir það heiftarleg viðbrögð hans. Kveðst ákærði iðrast háttsemi sinnar mjög,“ segir í dómnum. 

Dómurinn lítur til þess að um alvarlegan verknað hafi verið að ræða og hefði hæglega getað farið verr en í þessu tilviki hlaut hinn maðurinn ekki varanlegt líkamstjón.

„Mátti ákærða vera ljóst að með því að beita flösku eins og hann gerði væri líklegt að brotaþoli yrði fyrir skaða.“

Auk greiðslu miskabóta, þá var manninum gert að greiða málskostnað og málsvarnarþóknun skipaðs verjanda, samtals um 150.000 kr. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert