Landssamtök lífeyrissjóða segja samtal ekki hafa átt sér stað milli lífeyrissjóða, stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins með það fyrir augum að finna lausnir svo lífeyrissjóðir geti, innan ramma laga, tekið þátt í að mæta erfiðum aðstæðum sem Grindvíkingar standa frammi fyrir og sett hafa eignir og afkomu þeirra í hættu.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landssamtökum lífeyrissjóða.
Tímabundið greiðsluskjól hefur nú þegar verið tryggt fyrir Grindvíkinga með lífeyrissjóðslán. Þannig frestast greiðsla afborgana, vakta og verðbóta lífeyrissjóðalána án viðurlaga.
Kallað hefur verið eftir því að lífeyrissjóðir gangi lengra og er í því sambandi vísað til bankanna sem fellt hafa niður vexti og verðbætur húsnæðislána Grindvíkinga til þriggja mánaða.
Ákvörðun bankanna var kynnt sem hluti af heildstæðri lausn fyrir Grindvíkinga með aðkomu stjórnvalda en lífeyrissjóðir voru ekki hafðir með í ráðum vegna þess.
Í tilkynningunni segir að ljóst sé að vinna þurfi á breiðum grunni með stjórnvöldum og aðilum vinnumarkaðarins að því að kanna hvaða lausnir koma til greina af hálfu lífeyrissjóða.
„Þetta samtal hefur ekki átt sér stað. Unnið verður að því á næstu dögum að tryggja farsæla lausn með aðkomu lífeyrissjóða.“