Loka hluta af húsnæði Reykjalundar

Loka þarf hluta af húsnæði Reykjalundar.
Loka þarf hluta af húsnæði Reykjalundar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Loka þarf hluta af húsnæði Reykjalundar, þar sem nokkrar af byggingum heilbrigðisstofnunarinnar eru í bágu ásigkomulagi. Úttekt verkfræðistofu sýnir að óheilnæmt sé fyrir sjúklinga og starfsfólk að dvelja í húsnæðinu.

Gerðar verða ráðstafanir svo ekki þurfi að draga úr starfseminni en hluta þess gistirýmis sem nýst hefur fólki af landsbyggðinni þarf þó að loka alfarið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjalundi.  

Stjórnendur óskuðu eftir úttekt á húsnæðinu

Stjórnendur Reykjalundar óskuðu eftir úttekt á húsnæðinu vegna áhyggna starfsfólks og stjórnenda um að hluti húsnæðisins stæðist ekki kröfur. Hvorki til veitingar heilbrigðisþjónustu við viðkvæmra sjúklingahópa, né sem vinnustaður starfsfólks. 

Viðamikil úttekt verkfræðistofu á húsnæðinu hófst síðasta sumar og staðfestir hún grun um ófullnægjandi ástand í hluta af húsnæðinu. Framkvæmdastjórn Reykjalundar hefur því tekið ákvörðun um að loka þeim hluta af húsnæðinu frá og með næstu helgi.

Ekki liggur fyrir hvernig staðið verði að viðgerðum eða fjármögnun þeirra. Engir fjármunir eru eyrnamerktir viðhaldi eða uppbyggingu á aðstöðu fyrir starfsemina í þjónustusamningi Reykjalundar við Sjúkratryggingar Íslands, segir í tilkynningunni. 

Reynt að lágmarka áhrif lokunarinnar á þjónustu

Þá segir jafnframt að reynt verði eins og kostur er að lágmarka áhrif lokunarinnar á starfsemi Reykjalundar. 

Sjúkratryggingum Íslands, sem er samningsaðili af hálfu ríkisins, vegna þeirrar þjónustu sem veitt er á Reykjalundi, hefur verið tilkynnt um ástandið. Þá hefur heilbrigðisráðherra verið upplýstur og starfsfólk heilbrigðisráðuneytisins. Óvissa ríkir um hversu lengi lokunin muni vara.

Þjónustusamningur við Sjúkratryggingar að renna út 

Í þjónustusamningi Reykjalundar við Sjúkratryggingar er kveðið á um að greiðslur vegna samningsins megi einungis nýta til þjónustu við sjúklinga en núverandi samningur rennur út þann 31. mars næstkomandi. SÍBS hefur frá stofnun Reykjalundar greitt kostnað við uppbyggingu og viðhald og útvegað Reykjalundi húsnæði endurgjaldslaust og er öll starfsemi þessara aðila óhagnaðardrifin.

Eftir því sem húsnæðið hefur orðið eldra og viðhaldsfrekara þá dugar styrktar- og söfnunarfé SÍBS ekki lengur til og því hefur einungis verið unnt að sinna lágmarksviðhaldi á Reykjalundi síðustu ár. Stjórnvöld hafa verið upplýst um að húsnæðismál Reykjalundar væru ekki sjálfbær, að því er fram kemur í tilkynningunni. 

Gistirýmum fyrir sjúklinga af landsbyggðinni fækkar

Niðurstöður úttektarinnar og ákvörðun Reykjalundar um að loka hluta húsnæðisins voru kynntar starfsfólki Reykjalundar í hádeginu. Í framhaldinu verður rætt við sjúklinga sem eru í meðferð og þá sem eiga að koma á næstunni til meðferðar.

Ljóst er að færri gistirými munu standa sjúklingum utan af landi til boða þar sem hluti þess sem nú er lokað eru gistirými sem notuð hafa verið fyrir fólk sem dvelur á staðnum á meðan meðferð þess stendur. Reynt verður að leysa úr þeirra málum eins og kostur er.

Engir fjármunir til viðgerða á húsnæði

Alls munu 32 starfsmenn missa vinnuaðstöðu sína samhliða lokun húsnæðisins en alls starfa um 180 á Reykjalundi. Starfsemi Reykjalundar verður takmörkuð á morgun, föstudag, þegar reynt verður að skipuleggja nýjar starfsstöðvar fyrir umrætt starfsfólk til bráðabirgða. Slíkt fyrirkomulag gengur þó ekki upp til lengri tíma.

Það er von Reykjalundar að hægt verði að finna lausn sem tryggir samfellda og órofna þjónustu við sjúklinga til bæði skamms og langs tíma ásamt því að geta boðið upp á góða vinnuaðstöðu fyrir starfsfólk. Kannaðir verða möguleikar á leigu færanlegra húseininga eða flutningi tímabundið í annað húsnæði. Vandinn er að litlir sem engir fjármunir eru til staðar til að greiða fyrir leigu slíks húsnæðis, eða til að hefja viðgerðir á núverandi húsnæði.

Stjórnendur Reykjalundar harma þau óþægindi sem þetta hefur í för með sér fyrir sjúklinga og vinnu starfsfólks og skora á heilbrigðisyfirvöld að taka fullan þátt í að finna farsælar lausn sem allra fyrst, segir í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka