Nýr kraftur í þjóðmálaumræðunni

Hallur Már Hallsson, Stefán Einar Stefánsson og Ásthildur Hannesdóttir sem …
Hallur Már Hallsson, Stefán Einar Stefánsson og Ásthildur Hannesdóttir sem einnig kemur að framleiðslunni. mbl.is/Árni Sæberg

Á morgun hefur göngu sína nýr sjónvarpsþáttur á mbl.is sem ber yfirskriftina Spursmál. Þangað verður fjölbreyttum hópi viðmælenda stefnt til þess að ræða þau mál sem í brennidepli eru á hverjum tíma í íslensku samfélagi. Stjórnandi þáttarins er Stefán Einar Stefánsson, blaðamaður á Morgunblaðinu.

Tilkynnt var um þáttinn í tengslum við 110 ára afmæli Morgunblaðsins fyrr í þessum mánuði en á síðustu árum hefur fjölmiðillinn fetað sig jafnt og þétt inn á svið ljósvakamiðlunar, bæði í útvarpi en einnig netsjónvarpi – ekki síst með Dagmálum sem öðlast hafa traustan sess í umræðu um stjórnmál, menningu, viðskipti og samfélagsmál af fjölbreyttum toga.

Í opinni dagskrá

Spursmál verða í opinni dagskrá á mbl.is og verða send út kl. 14.00 alla föstudaga. Haraldur Johannessen, ritstjóri Morgunblaðsins og framkvæmdastjóri Árvakurs, segir þáttinn kærkomna viðbót við þá miklu efnisframleiðslu sem fyrir er á vettvangi miðla Árvakurs.

„Morgunblaðið og mbl.is eru stöðugt að leita nýrra leiða við að miðla mikilvægum upplýsingum og áhugaverðum umræðum. Umræðuþátturinn Spursmál er nýjasta viðbótin í þessum efnum og er til kominn vegna þess að við höfum talið vanta skarpa en vandaða umræðu af þessu tagi. Stefán Einar hefur góða reynslu úr annarri þáttagerð hjá okkur og ég efast ekki um að hann mun leiða fram svör við krefjandi spurningum sem annars staðar yrði hvorki spurt né svarað,“ segir Haraldur.

Meðal gesta í fyrsta þætti eru þær Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, fjármálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, og Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar.

„Markmiðið með þættinum er að efla líflega og innihaldsríka umræðu um þjóðfélagsmálin hér á landi,“ segir Stefán Einar og bætir því við að of mikið framboð sé af umræðuþáttum þar sem spurningum er ekki fylgt eftir af festu en sanngirni um leið. „Það er löng hefð fyrir þáttagerð af þessu tagi í nágrannalöndum okkar og við höfum metnað fyrir því að koma umræðunni á sama plan og þar. Það er bæði gott fyrir lýðræðið og upplýsta umræðu, en líka það fólk sem fer með völdin á hverjum tíma. Í þessu felst raunverulegt aðhald að mínu mati,“ segir hann.

Spennandi undirbúningur

Hallur Már Hallsson stýrir framleiðslu á þættinum en hann er öllum hnútum kunnugur á vettvangi mbl.is. Hann hefur frá upphafi borið hitann og þungann af framleiðslu Dagmálaþáttanna auk ýmiss sjónvarpsefnis sem framleitt hefur verið fyrir miðla Árvakurs.

„Undirbúningurinn fyrir þetta verkefni hefur verið mjög spennandi og það hefur verið í mörg horn að líta. Það hefur skipt öllu að við erum með mjög öflugan hóp fólks með margþætta þekkingu og þegar allir leggjast á eitt þá er hægt að framleiða spennandi efni sem slær nýjan tón,“ segir Hallur Már.

Þátturinn er sendur út kl. 14.00 eins og áður segir en verður í kjölfarið aðgengilegur á mbl.is auk helstu hlaðvarpsveitna og á Youtube.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert