Rúmlega þriðjungur raftækja í endurvinnslu

Heimilistæki sem lokið hafa sinni vakt á heimilum landsins.
Heimilistæki sem lokið hafa sinni vakt á heimilum landsins. mbl.is/Árni Sæberg

Um 35% raftækja sem flutt eru til landsins skila sér í endurvinnslu eftir því sem næst verður komist samkvæmt tölum sem Umhverfisstofnun birtir og er þá miðað við árið 2020.

Þegar eigandinn sér ekki lengur notagildi í tækjunum er sá möguleiki fyrir hendi að fara með rafmagns- og rafeindatæki í endurvinnslu eins og margir vita. Hvað verður um tækin sem ekki skila sér í endurvinnslu er erfitt að segja til um en í einhverjum tilfellum lenda þau ef til vill lengi í geymslunni hjá eigandanum.

Þegar söfnunarhlutfall af raf- og rafeindatækjaúrgangi er reiknað þá er fyrst fundin heildar-meðaltalsþyngd innfluttra raftækja þriggja ára fyrir það ár sem er til skoðunar, til dæmis árið 2020. Er þá innflutningur raftækja 2017-2019 skoðaður og þeirri tölu er deilt upp í heildarþyngd allra raftækja sem skilað er á árinu 2020.

Aftarlega á merinni

Miðað við þessar forsendur skilar sér minna af raftækjum í endurvinnslu á Íslandi en víða annars staðar í löndum innan evrópska efnahagssvæðisins. Samkvæmt tölum frá Eurostat [Hagstofu Evrópusambandsins] er töluvert hærra hlutfall sem skilar sér í endurvinnslu hjá Búlgörum, Króötum, Finnum, Norðmönnum, Slóvökum, Eistum, Austurríkismönnum, Írum og Tékkum sem dæmi.

Mun nær okkur Íslendingum í skilum í þessum flokki eru Hollendingar, Danir, Frakkar, Grikkir, Slóvenar. Hlutfallið hjá Ítölum er nánast það sama og hjá Íslendingum en minna hjá Portúgölum. Öll ríkin setja sér markmið um hversu mikið sé endurunnið af því sem safnað er. Íslendingar ná ekki markmiðum um 45% skil í þessum flokki en sama á við um liðlega tíu önnur ríki. 

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert