Slysum á ferðamönnum fækkar

Slysum í umferðinni þar sem meiðsl hafa orðið á fólki hefur hlutfallslega fækkað í þeim tilvikum sem ferðamenn eru undir stýri.

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra svaraði fyrirspurn frá Indriða Inga Stefánssyni, varaþingmanni Pírata, um umferðarslys og erlend ökuskírteini, í fyrirspurnartíma á Alþingi.

Ferðamenn eru í svarinu skilgreindir sem þeir sem koma frá landi sem ekki er með samning við Ísland um gagnkvæma viðurkenningu ökuskírteina. Þau lönd sem eru með slíkan samning við Ísland eru innan evrópska efnahagssvæðisins, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Japan og Bretland.

Ferðamenn slösuðust frekar í slysum

Ef svör ráðherra eru borin saman við gögn frá Samgöngustofu kemur í ljós að á árunum 2013 til 2016 lentu hlutfallslega fleiri ferðamenn í slysum þar sem meiðsl urðu á fólki en heildarfjöldi þeirra sem lenti í slíkum slysum.

Slys voru sem sagt tíðari á fólki í umferðaróhöppum þar sem ferðamenn voru undir stýri en þegar íslenskir ökumenn áttu í hlut.

Árið 2017 lentu lítið eitt færri ferðamenn hlutfallslega í slíkum slysum en íslenskir ökumenn en árin 2018 og 2019 var hlutfall erlendra ferðamanna aftur orðið hærra.

Slysum fækkaði umtalsvert á síðasta ári

Árið 2020 var hlutfall þeirra lægra en árið 2021 mikið mun hærra. Það var svo á síðasta ári sem hlutfall erlendra ferðamanna dróst umtalsvert saman miðað við aðra sem lentu í slysum með meiðslum á fólki.

Bílaleigur hafa undanfarin misseri gert átak í uppfræðslu og upplýsingagjöf til handa ferðamönnum um færð og ástand á vegum landsins. Mögulega er það að hafa þessi miklu áhrif til góðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert