Um 500 metra vantar upp á

Vörubílar á ferðinni.
Vörubílar á ferðinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðeins vantar um 500 metra upp á að tengja varnargarðana tvo í kringum Svartsengi saman.

Annar þeirra liggur samsíða Sundhnúkagígaröðinni og Hagafelli, austan við Þorbjörn, og er hann orðinn um 1.400 metra langur.

Hinn garðurinn, sem liggur frá Sýlingarfelli að Þorbirni í kringum orkuverið Svartsengi og Bláa lónið, er orðinn um 3.800 metra langur, að sögn Arnars Smára Þorvarðarsonar, byggingatæknifræðings hjá Verkís. 

Blaðamaður og ljósmyndari mbl.is voru á svæðinu í dag til að fylgjast með framkvæmdum. 

Varnargarðurinn samsíða Sundhnúkagígaröðinni og Hagafelli, austan við Þorbjörn, er orðinn …
Varnargarðurinn samsíða Sundhnúkagígaröðinni og Hagafelli, austan við Þorbjörn, er orðinn um 1.400 metra langur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Náð fyrsta áfanga víðast hvar

Víðast hvar hafa garðarnir náð fyrsta áfanga í hæð yfir hápunkti í landslaginu, eða þremur metrum, og er verið að breikka þá til að þeir nái öðrum áfanganum, eða um fimm metrum.

Um 20 til 30 vörubílar með misstórum pöllum hafa verið notaðir til verksins, ásamt gröfum og jarðýtum.

Aftengt frá flutningskerfinu

Að sögn Arnars Smára var hlé gert á framkvæmdum á því svæði þar sem Landsnet reisti nýtt mastur í dag við varnargarðinn.

Fyrir vikið var orkuverið Svartsengi aftengt frá flutningskerfi fyrirtækisins í dag. Framkvæmdir við varnargarðana ganga annars vel, bætir hann við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert