Grindvíkingar mótmæltu í höfuðstöðvum Gildis lífeyrissjóðs og Landssamtaka lífeyrrissjóða í dag.
Var markmiðið að þrýsta á lífeyrissjóði um að koma betur til móts við Grindvíkinga sem nú þurfa að finna sér nýtt húsnæði með tilheyrandi kostnaði, segir í Facebook-færslu Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR.
„Það er lágmarkskrafa okkar að vextir og verðbætur verði felldar niður tímabundið, eða þrjá mánuði, á meðan mesta ósvissan ríkir og fylgi þannig fordæmi bankanna,“ segir í færslunni þar sem fólk var hvatt til að mæta og sýna samstöðu í verki.
Það voru þeir Ragnar, Hörður Guðbrandsson, formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur og
Einar Hannes Harðarson, formaður Vélstjóra og sjómannafélags Grindavíkur, sem boðuðu til mótmælanna. Auk þeirra mætti Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.