Sigtryggur Sigtryggsson
Skipulagsfulltrúa Reykjavíkur barst nýlega fyrirspurn um mögulega uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á lóð bensínstöðvar í Stóragerði 40, sem er nálægt Háaleitisbraut og Brekkugerði.
Skipulagsfulltrúinn tók jákvætt í erindið en var jafnframt með nokkrar athugasemdir og ábendingar varðandi gerð deiliskipulags fyrir reitinn.
Eins og fram hefur komið hér í blaðinu hefur það verið stefna Reykjavíkurborgar að fækka bensínstöðvum í þéttbýli. Gengið var til samninga við olíufélögin um uppbyggingu á bensínstöðvarlóðum. Á dögunum birtist í blaðinu frétt um áform um uppbyggingu á lóð bensínstöðvar Olís á mótum Egilsgötu og Snorrabrautar.
Á lóðinni Stóragerði 40 er bensínstöð N1, áður Esso. Lóðin er 2.065 fermetrar að stærð. Það var arkitektastofan DAP sem sendi fyrirspurn um breytingu á deiliskipulagi fyrir hönd lóðarhafans, sem er Festi ehf. Hinn 27. maí 2021 gerðu Festi og Reykjavíkurborg með sér samning um fækkun bensínstöðva og uppbyggingu á lóðinni. Í samningnum kemur meðal annars fram að Félagsbústaðir hafi kauprétt á 5% íbúða í húsunum á lóðinni og að kvöð sé að 20% íbúða skuli vera leiguíbúðir, stúdentaíbúðir, leiguíbúðir Félagsbústaða hf, búseturéttaríbúðir og/eða íbúðir fyrir aldraða.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.